Thursday, May 5, 2011

Hér um bil næstum því alveg

Sit hér með kaffibollan minn og lýt yfir farinn veg. Já, já konan er bara háfleyg svona í morgunsárið.

Fyrir rúmum fjórum árum sátum við vinkonurnar hér við þetta sama borð og hún sagðist ætla í fjarnám í hjúkrunarfræði, hvort ég skellti mér ekki bara líka. Ég hrópaði nú ekkert uppyfir mig jú, pottþétt alveg strax. Ég var nú eiginlega ekki að nenna þessu þó að löngun í hjúkrunarfræðinám hafi verið ástæðan fyrir því að ég skellti mér í framhaldsskólan og lauk stúdentsprófi (2001). Eftir nokkra umhugsun var ákvörðun tekin um að fylgja vinkonunni í þetta nám.

Fyrsta prófatörnin var skelfingin ein, mig langaði að grenja á hverjum einasta degi og hugsaði vinkonunni þegjandi þörfina fyrir að hafa haft mig út í þetta helvíti.

En hér er ég fjórum árum seinna og við vinkonurnar ásamt tveimur öðrum vinkonum erum að klára þetta. Við höfum unnið myrkranna á milli í næstum tvær vikur svo lokaritgerðin kláraðist nú á réttum tíma. Við höfum mætt snemma á morgnana og skriðið heim seint á kvöldin, við höfum líka skipst á að mæta í vinnuna, einhver verður víst að standa vaktina þar.

Við erum farnar að sjá fyrir endan á þessu og ef að allt gengur að óskum þá er hugsanlegt að við prentum út á morgun. Sei, sei, sei. Ég á mjög bágt með að þurrka glottið af andlitinu, og ég á líka alveg skilið að glotta smá.

Tengdamóðir mín hefur verið svo elskuleg að sjá um heimilið fyrir mig síðast liðna viku, öðruvísi hefði þetta ekki verið hægt. Verst að ég gæti nú alveg vanist svona þjónustu að koma heim og það bíður mín bara ekkert nema að knúsa börnin (ef þau eru ekki sofnuð), öllum öðrum verkum er lokið.

Ég get líka laumað því með að hér er ungur drengur sem telur niður dagana þangað til mamma verður búin með skólann sinn. Spurningin "ferðu þá aldrei meir í skóla?" hefur heyrst nokkrum sinnum. Mamman á reyndar frekar erfitt með að svara öðruvísi en "ekki alveg á næstunni allavega". Hún hefur nefnilega rekið sig á það að það borgar sig ekki að segja aldrei.............................

Hafið það gott og njótið tilverunnar.

2 comments:

Svava Bjarnadóttir said...

Til hamingju með þetta Íris, ég á engin orð til að lýsa því hvað mér finnst þú dugleg kona. Þú ert líka heppin með alla þá sem í kringum þig eru og ómetanlegt fyrir þig, fjölskylduna, vinkonurnar og að hafa getað klárað þetta því að það er ekki gert með annari hendinni. Þúsund sinnum til hamingju enn og aftur og ég veit að heilladísirnar eiga eftir að dansa að vegi þínum í framtíðinni og ekki minnst á næstunni þar sem þú ferð að glíma við verkefnin í nýju landi. Megaknús til ykkar.

Frú Sigurbjörg said...

Heyr heyr, sammála síðasta ræðumanni!