Sunday, May 15, 2011

Jæja

Eins og sennilega flestir hafa orðið varir við þá höfum við hjúkkusystur skilað lokaritgerðinni. Það var ótrúlega mikill léttir þegar hún var komin í umslag blessunin og út á pósthús. Skrítin tilfinning samt en ósköp notaleg. Allar einkunnir komnar í hús þessa önnina nema fyrir blessaða lokaritgerðina, svo þetta er allt að hafast. Við skreppum norður í land nú í lok vikunnar og höldum 5 mínútna kynningu (já þið lásuð rétt 5 mínútur takk) á meistarastykkinu okkar og svo eru gefnar 5 mínútur til að spurja okkur út úr. Þannig að seinnipart þess 20.maí þá er þetta bara búið :))))))

Ég fór í "útskriftarferð" um helgina alla leið inn í Hoffell (c.a 10 mín. akstur héðan). Við tókum á móti 16 bekkjarsystrum okkar þessa helgi í nokkurs konar óvissuferð. Þær gistu í Hoffelli og við skemmtum okkur með þeim þar, og tvær okkar gistu með þeim aðfaranótt sunnudags. Ingibjörg og Dúddi dekruðu við okkur eins og þeim einum er lagið. Við buðum bekkjarsystrunum í siglingu út fyrir Ós og eitthvað hér innan fjarðar. Sýndum þeim námsaðstöðuna okkar í Nýheimum og hjúkrunarheimilið. Þær kíktu í heimamarkaðsbúðina og fengu sér gott að borða á Kaffihorninu. Svo fórum við í fjórhjólaferð með Dúdda inn að Hoffellsjökli (þ.e lóninu þar), borðuðum kvöldmat að hætti Ingibjargar inn í Geitafelli (úti), dúlluðum okkur í alls konar leikjum og skáluðum að sjálfsögðu. Eitthvað var sullað í heitu pottunum, einhverjar minna klæddar en aðrar. Þetta var rosalega skemmtilegt og bekkjarsysturnar lögðu af stað heim í morgun þreyttar en ánægðar. Það þarf sko ekki að fara langt til þess að upplifa ógleymanlega útskriftarferð.

Til marks um hvað sumir eru orðnir leiðir á flakki mínu síðastliðin fjögur ár, þá var yngri sonur minn ekki ánægður þegar að ég sagði honum að hann ætti að gista hjá ömmu og afa. Hann varð bara fúll og setti upp svip, ég reyndi nú að tala hann til og við ræddum þetta fram og til baka. Að lokum sagði hann okei allt í lagi þá, en hvað þarf ég að vera þar í MARGAR VIKUR!!!!!!! Hann varð mjög sáttur þegar hann vissi að við værum nú bara að tala um eina nótt.

Í allri gleðinni þá kemur fyrir að maður upplifi líka sorg. Við heyrðum fréttir af hræðilegum atburðum á föstudaginn þar sem ung kona var myrt. Og megnið af föstudeginum þá var þetta aðal umræðuefnið hvar sem maður kom. Seint á föstudagskvöldið uppgötvaði ég að þetta var dóttir æskuvinar Nökkva. Stúlka sem ég hef hitt nokkrum sinnum frá því að hún var lítil. Síðast hitti ég hana heima hjá foreldrum sínum með tæplega ársgamlan son sinn. Þetta var smá sjokk, alltaf skal maður halda að svona atburðir tengist manni ekki nokkurn skapaðan hlut. Ég hugsa mikið til foreldra hennar, bræðra og sonar sem ganga í gegnum hræðilega sorg og erfiða tíma.

Á laugardaginn fékk ég líka þær fréttir að Sissa amma mín væri með krabbamein, og við bíðum bara frétta af því hvert ferlið verður í að reyna að vinna á þeim vágesti.

Munum að vera góð hvort við annað og njóta hvers augnabliks sem við eigum saman. Það veit engin hvað morgundagurinn ber í skauti sér.

3 comments:

elina said...

knús

Svava Bjarnadóttir said...

Já Íris mín. Lífið býður okkur upp á mörg verkefni... svo er það spurningin hversu mikið fær maður og hvernig er þeim deilt. Ég vona svo sannarlega að allt fari vel hjá ykkur og að loksins fari góðir hlutir að gerast þegar fjölskyldan sameinast í júlí. Til hamingju með verkefnið og námið allt. Þú ert dugleg, alveg ótrúlega dugleg. Sendi ykkur hlýjar kveðjur með von um góða rest...

Hrafnhildur Halldórsdóttir said...

já það skiptast svo sannarlega á skin og skúrir. Njóttu samt sólargeislanna og þess að vera orðin hjúkrunarfræðingur. Til hamingju elsku Íris mín þú ert svo sannarlega búin að standa þig vel og ég vildi óska að ég kæmist til Akureyrar að sjá þig flytja verkefnið þitt. Ég verð með þér í anda og samgleðst þér svo innilega.