Thursday, August 25, 2011

Er ekki tími til kominn að tengja (blogga)

Það hefur verið nóg að gera hjá fjölskyldunni síðan ég bloggaði síðast, svo ég hef bara ekki gefið mér tíma í fréttapistil en nú er komið að því gott fólk.

Strákarnir eru byrjaðir í skólanum. Vorum boðuð á fund í skólan hjá Darra tveimur dögum áður en hann átti að byrja. Þar hittum við kennarana og fengum kynningu á því sem í vændum var ásamt kynnisferð um skólann. Þetta var mjög gott og fínt fyrir Darra að vera búinn að sjá framan í kennarana og skoða skólann fyrir fyrsta skóladag, minnkaði aðeins kvíðann. Hann er í innflytjendabekk ásamt 12 (að mig minnir) öðrum innflytjendum á aldrinum 13-16 ára, þarna eru krakkar frá Póllandi, Tælandi, Filippseyjum, Litháen og Afganistan. Hann fær hins vegar að vera með 10.bekknum eftir getu og það er svona ennþá verið að finna út hversu mikið hann getur verið með þeim, vonandi verður það bara sem mest. Honum líst bara ágætlega á sig að mestu leyti. Finnst reyndar eins og hann sé aftur kominn í 1.bekk þegar hann er í norskutímum og þarf að þylja: Jeg hetter... og er 15 år. Hann er heldur ekki alveg sáttur við hvað hann þarf að sitja lengi í skólataxanum sem sækir krakka hist og her um kommunúna. Taxinn sækir hann kl 7:30 en skólinn byrjar 8:45. Það er líka erfitt að spjalla við hina krakkana í innflytjendabekknum þar sem fæst tala norsku og meirihlutinn talar ekki heldur ensku. Held að Darri minn hafi séð hvað hann var vel settur með sína enskukunnátu sem er þó hægt að bjarga sér á ef mögulega þarf og það kemur sér líka vel að hafa lært dönsku í tvo vetur. Krakkarnir í 10.bekknum hans eru líka farin að spjalla aðeins við hann m.a var hann spurður að því í gær hvort hann ætlaði að koma með þeim í skólaferðalag til Íslands í vor :) Það væri nú bara gaman ef það stendur til boða. Svo ég held að þetta eigi bara eftir að þróast vel og í rétta átt.

Skólinn byrjaði ekki svona vel hjá þeim yngri. Við vorum aldrei boðuð á svona kynningarfund heldur var hringt í mig og mér sagt að skólinn byrjaði hjá honum daginn eftir og það kæmi Taxi að sækja hann. Ég spurði hvort ekki ætti að vera nein kynning fyrir hann en fékk þau svör að það yrði talað við okkur síðar. Við hjónin vorum nú ekki alveg sátt við þetta og fengum hnút í magan, veltum því fyrir okkur hvort þetta væri það sem koma skildi á þessum bæ. Ég afþakkaði Taxann og sagðist ekki senda barnið eitt fyrsta daginn, hann talaði jú ekki norsku og allt væri ókunnugt. Sem betur fer tóku á móti okkur yndislegir kennarar og allir voru almenninlegir og allir af vilja gerðir til að gera vel.

Ég fékk að spjalla við annan kennarann hans sem hafði ekki fengið gögn í hendurnar frá ráðhúsinu um að Fáfnir Freyr hefði greinst með ADHD, mótþróaröskun og fleira nú í vor. Hún setti málið strax í farveg og við erum búin að hitta hana þrisvar sinnum til að fara yfir málin og hún hjálpaði okkur að sækja um aðstoð til PPT-teymis. En það er teymi sem heldur utan um börn sem þurfa aðstoð og metur hvaða aðstoð þarf (þarf að gerast svo skólinn fái mannafla til verksins). Skólastjórinn talaði líka við okkur og það eru allir af vilja gerðir til að láta þetta allt ganga upp. Það getur tekið tíma til að komast að hjá PPT en þau ætla að gera allt sem þau geta til að flýta ferlinu því það kom strax í ljós að hann þarf einhverja aðstoð, á í erfiðleikum með einbeitingu og að sitja kjurr og fylgja fyrirmælum þegar fer að líða á morguninn, fer að gera allt annað en hann á að vera að gera. Ég er svo glöð með viðbrögðin sem ég hef fengið að ég grét næstum af gleði. Og allir tilbúnir að finna út hvernig best sé að taka á málum svo hann fái notið sín án þess að trufla aðra í bekknum. Við þurftum að skrifa lýsingu á hans vandamálum til að láta fylgja með umsókninni til PPT og það var erfitt. Manni finnst jú að maður eigi að verja barnið sitt og langar að draga úr öllum neikvæðum hliðum svo það var erfitt að vera 100% samkvæmur sjálfum sér þó maður vissi að það væri best fyrir hann. En sem betur fer fékk ég líka að skrifa um hans jákvæðu hliðar svo það gerði verkið auðveldara.

Fáfnir Freyr er ánægður í skólanum og finnst æðislegt að fá að fara með skólataxa í og úr skóla. Erum í samningaviðræðum við hann um að vera á skóladagheimili fyrir skóla og það gengur ekkert rosalega vel en þannig verður það að vera þar sem ég þarf stundum að vera mætt klukkan 7.30 í vinnu og Nökkvi mætir alltaf klukkuna 7 en skólinn hefst ekki fyrr en 8:45. Fáfnir er líka í innflytjendabekk þau verða 7 þar og þar eru börn frá Tælandi, Litháen, Filippseyjum og frá Póllandi. Þau eru reyndar bara fjögur ennþá en það bætast þrjú við fljótlega. Hann fær svo að vera eitthvað með 3.bekk t.d í verklegum greinum. Kennararnir eru alveg rasandi (eins og við foreldrarnir) yfir enskukunnáttu barnsins. Annar kennarinn hans er enskukennari að mennt og hún á bara ekki til orð yfir þessu, langar mest að setja hann í ensku með 7.bekk og nýta hann til að hjálpa 7.bekknum í að æfa sig í að tala ensku :) En ég er nú ekkert viss um að það muni verða.

Síðan ég skrifaði síðast erum við búin að fara í partý með kórfélögum Nökkva og það var rosalega gaman, þó svo að verðið fyrir Taxann heim eftir fjörið hafi næstum spillt gleðinni (lærðum að við fáum okkur ekki bæði í glas næst). Við líka búin að fara rúnt inn í Harðangursfjörðinn og kíktum þar í kaffi til íslenskra hjóna sem eiga "sumarbústað" í svona hjólahýsabyggð þar. Það var ákaflega gaman að fara þetta og fallegt í Harðangursfirðinum og við erum ákveðinn í að keyra lengra inn í fjörðinn næst.

Við Darri Snær erum búin að vera á golfnámskeiði og höfum nú fengið græna kortið (golfkortið) og megum því spila á öllum golfvöllum. Inni í námskeiðsgjaldinu var félagsgjald í golfklúbbinn hér út árið svo nú er bara að vera duglegur að mæta á völlinn. Það er mikið og fjölbreytt starf í klúbbnum og mikið lagt upp úr félagsskapnum og því að vera saman. Það eru kvennakvöld og herrakvöld einu sinni í viku og eru þá lítil mót. Svo eru byrjendamót hálfsmánaðarlega, einnig er það í boði einu sinni í viku að byrjandi getur bókað sig á völlinn og óskað eftir því að hafa Fadder(leiðbeinanda) með sér. Það er öflugt unglingastarf í golfklúbbnum og Darri Snær er búin að skrá sig í það. Hópurinn fær klukkutíma á viku með golfkennara sem er bara frábært.

Ég var í þessum skrifuðu orðum að fá vaktir fyrir septembermánuð og var það slatti af vöktum eiginlega fleiri en ég vildi, maður kann ekki við að neita mörgum vöktum svona í upphafi. Ég er enn að taka vaktir sem vantar á (extravaktir) en í október verð ég komin í fasta 25% helgarstöðu sem er þá þriðja hver helgi og svo mun ég taka vaktir sem vantar á og get þá stjórnað því aðeins hvað ég tek margar. Ég vonast svo til þess að fá fleiri prósentur fast, þar sem það er jú betra að vera nokkuð viss um hvað maður vinnur mikið. Ég hef samt ekki áhyggjur af því að fá fáar extra vaktir því það vantar jú alltaf eitthvað.

Ég hef ekki fundið fyrir heimþrá síðan ég flutti (enda búið að vera nóg að gera), þó svo ég sakni að sjálfsögðu ættingja, vina og stelpuskottsins míns. En ég fann fyrir því í fyrradag hvað það getur verið erfitt að vera langt í burtu. Besta vinkona mín (frá 4 ára aldri) missti mömmu sína eftir erfið veikindi nú á þriðjudaginn og mikið langaði mig til þess að geta verið nær henni. Hefði langað að fara til hennar og styðja hana og aðstoða á þessum erfiðu tímum, en fjarlægðin gerir fjöllin blá og langt og dýrt til Íslands. Við erum búnar að eiga gott spjall í gegnum síma og erum vanar að styðja hvor aðra þannig, því við höfum ekki búið í sama landshlutanum lengi. En mikið ofboðslega langaði mig til að fara og umvefja hana og leyfa henni að gráta í fangi mínu og rifja upp minningar. En svona er víst lífið, maður veit aldrei á hverju maður á von og getur ekki verið á mörgum stöðum í einu.

Strákarnir sakna að sjálfsögðu vina sinna en þetta hefur samt allt gengið mun betur með þá heldur en ég þorði að vona. Fáfnir Freyr talar svo sem ekki mikið um sína vini en einn daginn tók hann mynd úr stofunni af henni Karítas Diljá (systurdóttir mín 2.ára) og stillti henni upp inni í sínu herbergi. Svo skrifaði hann á blað sem hann setti við hliðina á myndinni -ég elska Karítas- . Darri Snær spjallar við sína vini daglega með aðstoð tölvunnar, svo hann heldur sambandinu við þá, sem er gott. Hann er svo kominn í unglingaklúbbinn í golfinu og ætlar að prófa að mæta á körfuboltaæfingar svo ég held að honum eigi ekki eftir að leiðast. Við ætlum líka að finna einhverja íþrótt fyrir Fáfni Frey, körfubolti hefur aðeins komist til tals en það kemur í ljós.

Það styttist óðum í að Yrsa Líf komi til okkar og öllum er farið að hlakka til. Hún kemur þann 6.september.

Jæja þetta er nú aldeilis orðið langur pistill. Kaffibollinn er löngu orðinn tómur og líklega kominn tími á að fara að gera eitthvað af viti.

Hafið það gott þar til næst.

9 comments:

Bryndis H said...

Alltaf gaman að fá fréttir
Gangi ykkur vel
kV
Bryndís H

Anonymous said...

Gaman að lesa að ykkur gangi vel.. heyrumst fljótlega kv Hanna

Egga-la said...

Gott að allt gangi vel miða við aðstæður. Vill bara segja þér af fenginni reynslu að þá tekur tíma að aðlagast. Um leið og strákarnir eru komnir með tungumálið(sem tekur þá helmingi styttir tíma en fyrir þig!!) þá eiga þeir strax eftir að finna sig betur. Eftir fyrsta árið verður lífið mikið auðveldara fyrir ykkur öll fyrir utan að taxaverðið verður það sama! Meiri helvítis verðið á þessu hér í landi. Jú og stundum þarf maður svolítið að minna PPT á sig svo bara vera í nefinu á þeim þangað til þið fáið það sem þið viljið. Ég er með meistarapróf í samskiftum við þetta fólk, bjallaðu í mig ef þig vantar hjálp.

Íris said...

Takk fyrir það Helga Dís, gott að vita af einhverjum með meistaragráðu í þessháttar málum. Taxinn kostaði mikið en leiðin var líka löng. Nú er ég í sjokki eftir að hafa borgað fyrir klippingu ;)

Anonymous said...

Frábært hvað allt gengur vel hjá ykkur ;) Kveðja Hildur

Anonymous said...

Kvitt, kvitt. Gaman að fá fréttie af þér og þínum eins og alltaf. Gangi ykkur áfram vel. Kveðja Guðlaug móðursystir ;)

Anonymous said...

Frábærlega gaman að lesa eftir þig eins og vant er, og sjá hvað þið eruð dugleg að láta hlutina ganga upp, alveg frábært með Darra og vona ég sannarlega að allt gangi upp með litla kútinn. Íris ! endilega sendu afa þínum þennan pistil veit að hann hefði svo mikið gaman að því.!!! Knús í hús með bestu kveðjum, gamla frænka (Sæa)

Anonymous said...

Elsku Íris, það tekur tíma að aðlagast. Þið eruð samrýmd og góð hvort við annað. og svoleiðis hljómar alltaf vel í mín eyru. Gangi ykkur vel frá munnsýktri og hálfdapri Gullu. Það er hægt að lækna krabbamein, en illska í munni bara hlær út í heiminn. xxx

Frú Sigurbjörg said...

Falleg mynd af ykkur.