Hjúkrunarfræðingur, þriggja barna móðir,eiginkona,dóttir,systir,frænka,vinkona og síðast en ekki síst meyja.
Thursday, September 15, 2011
Af stigvélum og fleiru
Splæsti á mig þessum dásemdarstigvélum. Ótrúlega sæt eitthvað. Þetta eru stigvél frá Ilse Jacobsen Hornbæk danskri kvinnu (http://www.ilsejacobsen.dk/). Ég varð fyrir hálfgerðum vonbrigðum með Ilse Jacobsen búðina í Bergen. Hún framleiðir mjög fallegar regnkápur (og mig dreymdi náttúrulega um að fá mér regnkápu í stíl við stigvélin) en það var nánast ekkert úrval af þeim í búðinni.
Ég var ekki slæmum félagsskap í búðarrápinu því þessi unga kona kom með mér. Ég bauð henni upp á pizzu og henni fannst að við ættum að fá okkur stórt glas af gosi sem við og gerðum. Glösin sem við fengum voru næstum jafn stór og yngismærin, 800 ml glös takk fyrir. Pizzan smakkaðist vel en svona til gamans þá ætla ég að geta þess að hvorugri tókst að klára gosið sitt. Við skemmtum okkur bara vel við að skoða í búðir, máta skó og skoða mannlífið. Þegar við keyrðum heim seinnipartinn þá þakkaði ég enn og aftur fyrir það að hafa ekki tekið þá ákvörðun að vinna á sjúkrahúsi inn í Bergen, við lulluðum í langri bílaröð nánast alla leið út á Sotru. Var að keyra á c.a 10-15 km hraða svona á milli þess sem ég var stopp (við erum að tala um að hámarkshraðinn er 80 km á þessari leið). Þegar ég fer í mína vinnu á morgnana þá sé ég að ástandið er svipað snemma morguns nema þá er það umferðin frá Sotru til Bergen sem lullar í langri langri röð.
Að allt öðru, mig langar að segja frá því hvað ég er heppin með nýju vinnufélagana. Þær eru allar yndislegar þessar blessuðu konur sem ég er að vinna með og taka mér svo ákaflega vel. Þær eru eiginlega bara hver annarri yndislegri sem að vonum ég er alsæl með, gott að koma inn í svona vinalegt andrúmsloft. Þegar ein þeirra komst að því hvaða ferli ég væri að ganga í gegnum með Fáfnir Frey þá tók hún mig algjörlega upp á sína arma og sagðist eiga barn sem hún hefði þurft að fara með í gegnum kerfið. Hún lýsti ferlinu frá a-ö fyrir mér og ítrekaði svo að þegar allt væri komið í gegn að þá ætti ég rétt á ýmsu t.d umönnunarbótum, ég sagðist nú ekkert vera viss um að ég þyrfti að þiggja slíkt. En vinkonan sló hnefanum í borðið og sagði ekkert bull góða mín þú átt rétt á þessu og þiggur það, barnið er með ADHD og á t.d eftir að týna einhverju af fötunum sínum t.d. Svo sagði hún mér að þegar ég væri komin með alla pappíra í hendurnar þá skildu hún nú bara koma með mér og aðstoða mig við að sækja um þetta.
Hún er alveg frábær þessi kona, fyrst þegar ég hitti hana datt mér í hug þungarokkari (hárið minnir á Jon Bon Jovi). Hún er alltaf brosandi og gamla fólkið ljómar þegar það sér hana, samt er hún svona algjör töffari og orkubolti. Hennar aðaláhugamál er að veiða og þá erum við að tala um sjóstöng og hún fer beint af vakt út á sjó að veiða, við erum að tala um að hún er að veiða allt upp í tæplega 20 kg þorska á stöng :) Svo kemur hún oft með ferskan fisk með sér t.d á kvöldvaktina og gerir að honum og sprækustu íbúarnir fylgjast spenntir með og svo er gúmmulaðið eldað. Hún er búin að skipuleggja krabbaveislu á deildinni fljótlega og ég hlakka sko ekki lítið til, þá erum við ekki að tala um bara fyrir starfsfólkið heldur íbúana og jú það starfsfólk sem vill taka þátt, ég fæ alveg vatn í munninn við tilhugsunina.
Það er allt að þokast í rétta átt hjá Fáfni í skólanum. Það hefur liðið heil vika þar sem ekkert hefur verið hringt vegna einhverra vandræða :) Hann er alsæll með aðstoðarmanninn sem virðist hafa mjög gott lag á honum. Það er farin að laumast ein og ein lítil setning á norsku út úr honum svona alveg óvart. Aðstoðarmaðurinn hans segir okkur að Fáfnir skilji orðið ótrúlega mikið í norskunni. Aðstoðarmaðurinn kom hér í heimsókn um daginn, hann hafði lofað Fáfni því að hann ætlaði að koma og sjá uppáhaldstölvuleikinn hans. Mér varð nú að orði við hann að hann þyrfti nú að eiga frí líka ætti ekki að vera eyða sínum frítíma í okkur, en hann sagðist hafa lofað drengnum því að koma og það stæði hann við, fyrir utan að það væri gott að vita um hvað hann væri alltaf að tala ;) Svo væri líka bara gott að koma og hitta okkur aðeins og spjalla. Það var ótrúlega skemmtilegt að fylgjast með þeim félögunum þar sem þeir sátu við eldhúsborðið og töluðu um leikinn, Fáfnir talaði á ensku (ótrúlegt að hlusta á það, hann hljómar eins og innfæddur ameríkani með hreim og öllu saman og orðaforðinn váá) og aðstoðarmaðurinn talaði norsku. Þeir virtust bara skilja hvorn annan nokkuð vel :) Aðstoðarmaðurinn tjáði okkur að þetta gengi alltaf betur og betur í skólanum. Árekstrum við hin börnin fækkaði, hann væri reyndar til staðar til að grípa inn í og leiðrétta misskilning, og að Fáfnir færi líka eftir þeim reglum sem hann setti og þegar vel gengi þá gerðu þeir eitthvað skemmtilegt. Hann sagði okkur líka að þeir væru þrír sem léku sér mikið saman í frímínútum allir úr innflytjendabekknum, Fáfnir, einn pólskur drengur og sá þriðji frá Tælandi. Enginn þeirra talar norsku og hinir tveir ekki ensku en þeim kæmi vel saman og allt gengi vel :)
Darri er núna á fyrstu körfuboltaæfingunni hér, verður spennandi að vita hvernig hann fílar það. Svo erum við að fara að leggja höfuðið í bleyti með Yrsu og reyna að finna einhverja vinnu fyrir hana, hún er búin að hafa það náðugt í næstum tvær vikur og það er nú alveg nóg :) Hún er spennt fyrir að athuga hvort einhverja vinnu sé að fá á leikskólunum hér í kring.
Jæja þetta er nú búinn að vera hinn sæmilegasti pistill held ég bara og komið mál að linni.
Kveð í bili og sendi knús í allar áttir.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
4 comments:
Indislegt stígvéla fár :) Gott að allt gengur svona vel. Takk fyrir pistilinn .Knús í hús
gott er að heyra að þetta gengur vel með alla fjölskyldumeðlimina. Bið að heilsa þeim Kveðja Guðný
Stígvélin eru geggjuð og þú verður að eignast glæsilega kápu í stil, ekki spurning!
Geggjuð stígvél!!
Gott að allt gengur vel í útlöndum :)
Post a Comment