Tuesday, April 17, 2012

Eyjan

Eins og líklega flestir vita þá höfum við fjárfest í húsnæði. Þetta er íbúð í parhúsi á eyju hér vestar. Jú, jú það er brúað. Það má kannski lýsa staðsetningunni eitthvað á þessa leið.

Bergen- Litla Sotra- Bildøy- Stóra Sotra- Langøy- og svo Algrøy (skilst að það séu 180 km til Shetlands frá Algrøy)

En Algrøy er einmitt eyjan sem við munum búa á. Á eyjunni er lítið en áhugavert samfélag. Mér skilst að það séu rétt rúmlega 90 hús á eyjunni og íbúarnir rúmlega 300. Já, við erum að tala um að flytja í sveitina.

Það verður lengra fyrir Nökkva að keyra í vinnuna en styttra fyrir mig. Það verður aðeins lengra að skreppa í mollið (en við lifum það af), en það eru matvörubúðir í nágreninu. Það mun verða eitthvað lengra fyrir unglingana að sækja skóla frá nýja staðnum en héðan af fjallinu. En Darri mun geta setið í með pabba sínum á morgnana og Yrsa fengið far hluta leiðarinnar með honum.

Það er grunnskóli á eyjunni, svona ekta sveitaskóli. Það eru á milli 20 og 30 nemendur í skólanum. Því miður er barátta um skólan, en kommúnan vill spara og fækka skólum. Kommúnan vill leggja niður alla litlu skólana, enda sjálfsagt óhagstæðar rekstrareiningar, en íbúarnir á Algrøy berjast á móti. Það er spurning hvað þeim tekst að halda lengi í skólan og maður heyrir á umræðunni að það er ekki mikil bjartsýni með það.

Í ljósi þessa og þeirra aðstæðna sem yngri sonurinn hefur verið í þá tókum við foreldrarnir ásamt kennurum hans og aðstoðarmanni þá ákvörðun að hann fengi að byrja næsta skólaár í þeim skóla sem hann er í núna. Svona til að demba ekki á hann miklum breytingum í einu þ.e að flytja, fara úr innflytjendabekk í almennan bekk og fara í nýjan skóla (sem verður svo kannski lagður niður á næsta eða þar næsta ári). Hann er farinn að finna ákveðið öryggi meðal jafnaldranna í skólanum og í skólaumhverfinu svo við töldum að þetta yrði best svona og fara svo að spá í flutning milli skóla síðar á skólaárinu. Ætlum að vinna í því að hann kynnist krökkum á eyjunni í gegnum félagsstarf og svona svo flutningur milli skóla verði auðveldari.

Það virðist vera mikil samheldni meðal íbúanna á Algrøy. Þar er íbúafélag sem stendur fyrir ýmsum viðburðum. Einu sinni í viku hittast konurnar (þær sem vilja) í "saumaklúbb", karlarnir (sem hafa áhuga) hittast einu sinni í viku og spila fótbolta og það er leikfimi fyrir alla íbúa (sem áhuga hafa) eyjarinnar einu sinni í viku. Mér finnst þetta spennandi og ætti þetta að auðvelda okkur að kynnast fólki og mynda tengsl. Það er líka a.m.k einu sinni á ári Bygdafest sem mér virðist vera eitthvað álíka og þorrablót, þar sem er komið saman og borðaður góður matur, gert góðlátlegt grín að náunganum og dansað.

Það er eitt sem veldur mér smá áhyggjum en það er það að meirihluti íbúanna ber eftirnafnið Algrøy, þannig að við íslendingarnir sem höfum ekki einu sinni fjölskyldunafn verðum eins og skrattinn úr sauðaleggnum þarna :)

Íbúðina fáum við ekki afhenta fyrr en 11.júlí, daginn eftir að við komum úr Íslandsferðinni.

Það styttist óðfluga í komu foreldra minna, en þau ætla að dvelja hjá okkur í viku. Er búin að koma því svo fyrir að ég verð í fríi og get því haft ofan af fyrir þeim allan tíman. Okkur hlakkar alveg rosalega mikið til að fá þau í heimsókn og sína þeim lífið okkar hér.

Góðar stundir.

9 comments:

Anonymous said...

mikið er gaman að fá þessar fréttir af ykkur þarna í Langtíbortistan og innilega til hamingju með húseignina. Aldrei að vita hvort maður á ekki eftir að heimsækja ykkur út í eyjuna, en knúz á ykkur frá Smárabrautinni í sól og blíðu. Kv. Guðný

Anonymous said...

Sæl kæra vinkona, gaman að heyra hvað allt gengur vel. Við Hanna vorum að spá í það um daginn hvort þetta væri eitthvað sértrúarsamfélag sem þið eruð að flytja í ;) en að öllu gríni slepptu þá samgleðst ég ykkur innilega.
Knús til ykkar allra og hlakka til að sjá ykkur í sumar.
kv. Anna María

Íris said...

Hahahaha, kannski Anna María er þetta bara svoleiðis, saumaklúbbskvöldin eru í bænahúsinu! Kannski það séu bænakvöld en ekki saumaklúbbur. Guðný ef þú verður á ferðinni þá ertu velkomin :) Svo rak ég augun í stafsetningarvillu hjá mér, en ég ætla að sjálfsögðu að sýna foreldrum mínum eitt og annað en ekki sína þeim það :)

Ameríkufari segir fréttir said...

Þetta hljómar mjög vel finnst mér og ég óska ykkur til hamingju með þetta allt saman. Það eru allir afi sinn, eins og Laddi sagði, og því er ég viss á að þið séuð eitthvað skyld þessum Algörvum.

Anonymous said...

Assskoti líst mér vel á ykkur elsku frænka og til lukku bara með allt heila klabbið,, og auðvitað stór kostur að það skuli vera brúað svo ekki þurfi að synda á milli,hrædd um að þú myndir þá sitja uppi með gömlu frænku ef hún álpaðist í heimsókn.
Ég er viss um að allt á eftir að ganga vel hjá ykkur, og bara stórt knús á ykkur öllsömul..Sæa

Anonymous said...

Þú ert með óþarfa áhiggjur eins og fyrri daginn Íris mín :) Þetta á eftir að ganga glimrandi vel. Gaman að lesa eins og alltaf :) Kveðja frá Guðlaugu móðursystur :)

Egga-la said...

Taktu þér bara eftirnafnið Algrøy. Þetta er örugglega svona eins og í gamla daga þar sem fólk kenndi sig við staðinn sem það bjó á!!!!

Anonymous said...

Eða bara taka upp eftirnafnið; Høfnihornafirdi, það væri gaman að heyra norsarana segja það.

Heiða Björk said...

Til lukku með þetta, hljómar mjög spennandi alltsaman :)