Monday, October 22, 2012

Framhaldsmont

Afsakið allt montið. Ég bara get ekki annað en sagt ykkur framhaldið af sögunni um gott gengi litla barnsins míns (sem er ekki svo lítið lengur).

 
 
Ég vissi bara að hann var alltaf með allt rétt í þessum stafsetninga/upplestraræfingum af því að hann kemur með þetta heim og ég kvitta fyrir því að hafa séð það. Í dag vorum við í foreldraviðtali og litli límheilinn okkar er sko að standa sig alveg fáránlega (afsakið orðalagið) vel.
 
Þegar við komum inn þá byrjaði kennarinn á þvi að segja að við ættum sko alveg ótrúlega kláran strák með mikla áherslu á ótrúlega, hann væri svo snöggur að læra og tileinka sér nýja hluti að hún væri eiginlega bara heilluð.
 
Ég sagðist nú svo sem alveg vita það að hann væri klár og snöggur að læra. En þegar hún fór að fara yfir námsefnið þá get ég ekki annað sagt en að guttinn kom sannarlega á óvart.
 
Hún byrjaði á því að segja okkur frá því hvað hann væri að standa sig vel með stafsetninga/upplestraræfingarnar, það væri ekki nóg með að hann væri alltaf með allt rétt heldur væri hann sá EINI í bekknum sem væri það, það var ekki laust við að hakan á foreldrunum hreinlega sigi niður á bringu og hjartað stækkaði aðeins af stolti.
 
Hún sagðist nú eiginlega líka bara verða að segja okkur frá prófi sem hann tók í vor með bekknum (en hann var aðeins með þeim í vor og þau vildu að hann tæki nokkurs konar samræmt próf með þeim). Þetta var einhverskonar lesskilnings próf (á norsku að sjálfsögðu). Þau höfðu ákveðinn tíma til að leysa hverja blaðsíðu. Þau lásu m.a texta og svöruðu spurningum, áttu að para saman samheiti og deila upp orðum (nokkur orð skrifuð í einu orði t.d slåpåostskap, svo áttu þau að setja strik til að aðskilja orðin). Snillingurinn minn náði nú ekki alveg að klára allt á hverri blaðsíðu en hann var með flest rétt af öllum í bekknum. Þegar hér var komið þá var móðirin nú bara við það að fara að gráta af stolti og monti. Kennarinn sagðist hafa þurft að fara amk 2 sinnum yfir prófið hans því hún hefði nú bara ekki trúað þessu, drengurinn talaði á þessum tíma eingöngu ensku við kennarana og starfsfólk skólans. Þegar hann tók þetta próf var hann búinn að læra norsku í 7 eða 8 mánuði. Hún sagði það væri ótrúlegt að barnið skildi t.d fá svona mikið rétt út úr því að finna samheiti og að deila orðunum upp því hann ætti í raun ekki að hafa heyrt eða séð sum orðin. Þetta á nú eiginlega bara ekki að vera hægt sagði hún, að hann sé flinkari á þessu sviði en börnin sem hafa norsku að móðurmáli.
 
Hann er að standa sig glimrandi vel í stærðfræði líka, var með allt rétt á prófi, einnig í öðrum fögum. Hann segir sjálfur að sér finnist erfiðast í samfélagsfræði og náttúrufræði, og hún sagði að honum gengi aðeins verr í þeim fögum en öðrum en það væri líka ekkert skrítið þar sem væri mikið af svona sértækum þungum orðum sem hann kannski heyrði ekki dagsdaglega.
 
Honum gengur rosalega vel félagslega sagði hún og að hann væri bara allt annað barn en í fyrravetur. Hann væri greinilega orðinn öruggur og svo væri kannski líka meiri rútína á honum í vetur þar sem hann væri ekki að flakka á milli tveggja bekkja (innflutningsbekksins og norska bekkjarins). Þannig að hann er svona nokkurn veginn með það á hreinu hvernig dagurinn verður og það hentar honum best.
 
Eldri börnin eru líka að standa sig frábærlega og gengur vel. Ég er sko ekki síður stolt af þeim.
 
Vá hvað ég er montin og stolt af stráknum.


8 comments:

Arna afasystir said...

Hann er snillingur :) Til hamingju með hann!

Anonymous said...

Alltaf flottur til hamingju með hann og þau hin líka Kv frá 16

Anonymous said...

Guð hvað það er gott að heyra þetta allt saman. Svo góð gen ;) Til hamingju með börnin þín stelpa :) Kveðja frá Guðlaug móðursystur

Anonymous said...

Aleilis frábært að lesa þetta :) Þetta eru frábær börn sem þið eigið, að sjálfsögðu er sá litli snilli :) Kveðja Hildur móðursystir

Hrafnhildur Halldorsdottir said...

Ég tárast bara við lesturinn. Þú mátt svo sannarlega vera stolt af þessum flotta strák, á og bara af ykkur öllum, þið standið ykkur öll svo vel.

Anonymous said...

Ég segi nú bara eins og næsta fyrir ofan, tárast bara við lesturinn. þetta er yndislegt og svo gaman að heyra..Knús til ykkar allra..Sæa ömmusystir. :)

Frú Sigurbjörg said...

Frábær mynd við þessa frábæru færslu. Ekki gleyma að vera stolt af sjálfri þér fyrir að alla þessa snillinga upp. :-)

Heiða Björk said...

Glæsilegur drengurinn :)