Ég er að hugsa um að deila með ykkur ævintýrum mínum frá því um kvöldarmatarleyti föstudagsins 13. jan til kl 04 laugardagsins 14. jan. Allt sem hér er ritað gerðist og er satt, þó það verði kannski aðeins skreytt með orðum. Þegar allir þessir hlutir áttu sér stað þá fannst mér þeir alls ekki fyndnir en ég er búin að hlæja að þeim eftir að pirringurinn rann af mér, svo ykkur er velkomið að hlæja hátt ef þið finnið hjá ykkur þörf til þess.
Ósköpin byrjuðu þegar kvöldmaturinn var eldaður. Í boði var heimabökuð pizza sem má segja að hafi verið eldbökuð, ég mæli ekkert sérstaklega með eldbakstir svona í heimahúsum allavega ekki í ofninum sennilega betra að nota eitthvað annað. En þetta atvikaðist þannig að þegar pizzan var tekin úr ofninum byrjaði bökunarpappírinn sem undir henni var að loga. Hann skíðlogaði og á meðan við hjónin reyndum að slökkva eldinn þá svifu mislogandi pappírsflyksur út um allt. Þetta fór allt vel en pizzan var bragðbætt með dassi af brunnum bökunarpappír. Hún bragðaðist bara sæmilega, þó ég segi sjálf frá.
Þegar líða fór á kvöldið fór hjúkrunarfræðingurinn að hafa áhyggjur af heimasætunni sem var búin að vera með magaverki frá því um morgunin. Ég fór að reyna að meta ástandið (líkamsmatið hjá IT kom sér vel). Einkennin sögðu mér að það væri möguleiki á því að daman væri með botnlangabólgu, ég var búin að horfa fram hjá þessum verkjum heimasætunnar allan daginn (svona eins og hjúkrunarfræðingar eiga til að gera þegar heimilisfólk þjáist af ýmsum kvillum). Þegar hér var komið taldi ég að réttast væri kannski að hafa samband við læknavaktina svona til vonar og vara. Þau vildu endilega fá að kíkja á dömuna þar sem þeim fannst að sjúkdómsgreining mín gæti verið rétt. Eftir skoðun á læknavaktinni vorum við sendar á Haukeland sjúkrahúsið til að meta ástandið enn frekar.
Ég taldi nú að það gæti nú ekki verið flókið að komast á þetta blessaða sjúkrahús, frúin tæknivædd með GPS tæki í bílnum (sem á það reyndar til að senda mann ótrúlegustu krókaleiðir). GPS-ið reyndist ágætlega framan af, tókum reyndar nokkrum sinnum ranga beygju og gerðum gelluna í tækinu alveg óða. Eftir akstur um þröngar einstefnugötur komum við að húsaþyrpingu sem við töldum að væri sjúkrahúsið, en við vorum nokkuð vissar á því að við værum nú ekki nálægt aðalinnganginum. Rúntuðum aðeins um en fundum aldrei neitt sem gat hugsanlega verið inngangur, hvað þá bílastæði. Mér fannst þetta reyndar allt frekar undarlegt, reiknaði með fleiri bílastæðum við svona stórt sjúkrahús. Allt í einu sáum við skilti sem á stóð Akut-mottak, við þangað. Til að komast inn á bílastæðið þurfti ég að hringja hjá vaktmanni sem sagði mér að ég þyrfti svo að færa bílinn um leið og ég gæti. Við hringdum bjöllu á Akut móttökunni og tók á móti okkur alúðlegur hjúkrunarfræðingur. Neibb við vorum ekki á réttum stað, þetta var barnadeildin. Þið þurfið að fara í aðalbygginguna, mér féllust hendur búin að keyra marga hringi þarna og sá engin skilti sem vísuðu á aðalbyggingu. Konu greyið sagði þá að við gætum farið bara í gegn hjá þeim, niður með lyftu og svo í þessa átt og beygja svo hérna, hélt hún......................eftir að hafa spáð og spekúlerað í smá stund ákvað hún að fylgja okkur. Við gengum allskonar krókaleiðir í gegnum kjallaran, heimasætan lét sig hafa að þramma þetta þó hún væri frekar þjökuð af verkjum.
Á réttan stað komumst við, þar sem daman var sett í rúm og skoðuð hátt og lágt og teknar blóðprufur og svona. Meðan við biðum eftir niðurstöðum blóðprufanna ákvað ég að núna væri líklega gott að fara og færa bílinn. Spurði hvert ég ætti að fara og fékk einhverja leiðalýsingu en var hleypt út um bakdyr, beint af deildinni í staðinn fyrir að fara í gegnum aðalbygginguna. Ég fann bílinn eftir smá labb og þá hófst nú leitin að aðalbyggingunni og bílastæðinu. Hring eftir hring keyrði frúin, orðin vægast sagt pirruð og pínu syfjuð. Sá eitthvað sem gat hugsanlega verið móttaka, lagði bílnum inn í minnsta og þrengsta bílastæðahús sem ég hef séð, þar voru eiginlega fleiri súlur/stöplar en bílastæði. Gekk að þessari móttöku sem mér fannst frekar lítil fyrir svona stórt sjúkrahús, enda var þetta sjúkrahótelið. Næturvörðurinn sagði að það væri í lagi að hafa bílinn þarna og vísaði mér veginn að aðalbyggingunni, labbar bara þarna inn á milli húsanna og þá ættir þú að finna skilti sem vísa veginn að aðalbyggingunni.
Á stað gekk ég í myrkrinu (ekkert verið að spandera í of mikla lýsingu þarna frekar en annars staðar) var búin að ganga í nokkra stund fram og til baka áður en ég fann skilti sem vísaði veginn að aðalbyggingunni. Kom að húsi þar sem var skilti fyrir ofan hurð og á skiltinu stóð aðalbygging. Mér fannst þetta frekar aumingjalegt eitthvað, engin móttaka fyrir innan dyrnar (sem voru læstar) en ég hringdi bjöllunni og vaktmaður svaraði í dyrasíman, ég náði rétt að segja ég er aðstandandi áður en hann ýtti á hnapp og dyrnar opnuðust. Ég gekk inn og fyrir framan mig var stigi, ég gekk upp hann og inn um dyr. Þá var ég stödd á miðjum gangi heila- og taugadeildarinnar, ég horfði aðeins í kringum mig og sá ekki hræðu, þannig að ég ákvað að gáfulegast væri bara að koma mér út. Fór sömu leið til baka en dyrnar út voru læstar og ég komst ekki út um þær.
Þá prófaði ég stigann niður. Endaði ofan í kjallara einhverjir leiðarvísar voru þar á veggjum svo ég hélt af stað, þeirri hugsun skaut upp að kannski yrði ég þarna að villast í marga klukkutíma og fyndi aldrei leiðina út. Þarna þvældist ég um ýmsa ranghala innan um sjúkrarúm og súrefniskúta og allskonar dót. Aldrei mætti ég einni einustu hræðu en ég átti alveg eins von á því að öryggisvörður mundi nú koma til þess að athuga hvað ég væri að veltast. Þegar mér var eiginlega hætt að standa á sama þá rambaði ég fyrir einhverja ótrúlega heppni á aðallyfturnar og komst aftur á Akút deildina eftir að hafa villst um sjúkrahússvæðið og kjallaran í klukkutíma.
Þegar hér var komið var búið að ákveða að heimasætan yrði flutt upp á deild og höfð þar til eftirlits, það var bara verið að bíða eftir móðurinni. Blóðprufurnar höfðu ekki sýnt neitt óeðlilegt en þau vildu hafa hana áfram og sjá hvernig málin þróuðust. Ég fylgdi dömunni upp á deild og fullvissaði mig um að hún yrði í góðum höndum, og mér var lofað að það yrði hringt í mig ef einhverjar breytingar yrðu á líðan hennar.
Þá var komið að því að koma sér út og finna bílinn minn aftur (á þessum tímapunkti var ég farin að sjá rúmið mitt í hyllingum enda klukkan að nálgast 4). Nú fór ég niður með lyftunni í móttökuna sem var risastór og þrjár útgönguleiðir um að velja. Rakst á öryggisvörð sem ég sagði hvar bílnum mínum væri lagt og spurði hvaða leið væri best að fara. Þegar ég kom út var ég stödd í risastóru bílastæðahúsi, nú var að finna leið út, sem ég fann fljótlega. Þegar ég kom út úr húsinu sá ég að ég var stödd við hliðina á húsinu sem ég hafði farið inn í fyrr um nóttina og talið að væri aðalbyggingin, greinilega gamli spítalinn. Ég fann bílinn minn fljótt og ætlaði nú aldeilis að drífa mig heim, þegar ég bakkaði út úr stæðinu var ég mjög upptekin af því að passa mig að bakka ekki á eina af þessum fáranlega mörgu súlum/stöplum sem þarna voru. Ég steingleymdi hins vegar súlunni sem var við hliðina á bílnum og skellti mér í smá súludans (mæli alls ekki með þannig dansi á bíl, og það er sennilega frekar ógáfulegt að keyra þegar athyglisgáfan er næstum sofnuð) hliðarspegillinn kom inn um rúðuna sem fór í mask og farþegahurðin beyglaðist. Þegar hér var komið sögu þá var skapið hjá frúnni orðið frekar tæpt og ég þó nokkur ljót orð fengu að fjúku út í algleymið.
Ég losaði bílinn af súlunni, steig út og skoðaði skemmdirnar, tróð speglingum sem dinglaði laus inn um brotnu rúðuna og ók af stað heim. Ég gerði mér grein fyrir því að þetta leit ekki vel út, það var eins og ég hefði brotist inn í bílinn og stolið honum, það hefði toppað ævintýri dagsins ef einhver árvökull vegfarandi hefði tilkynnt mig til lögreglunnar.
Mikið rosalega var ég fegin þegar ég var komin heim og gat skriðið upp í rúmið mitt.
Af sjúkrahúsdvöl dótturinnar er það að frétta að hún er komin heim, ennþá með botnlangan og virðist bara nokkuð frísk (sem betur fer).
Ég er ennþá hálf gáttuð á því hvað ég gat komist auðveldlega inn á spítalan (ekki um aðalinngang) án þess að gera almenninlega grein fyrir ferðum mínum, að ég tali nú ekki um að ég gat vafrað um kjallarann í lengri tíma óáreitt.
Ég á eftir að kanna hvað súludansinn muni kosta mig...........................
Á meðan á þessum ævintýrum stóð þá var mér ekki skemmt, en guð hvað ég er búin að hlæja mikið að þessum óförum mínum, verður sennilega fyndið þar til ég þarf að borga fyrir viðgerð á bílnum.
Ég get sem betur fer sagt svona í lokin að þetta er ekki alveg venjulegur dagur í mínu lífi, þó ég eigi það til að vera ótrúlega seinheppin ;)
Góðar stundir.
Hjúkrunarfræðingur, þriggja barna móðir,eiginkona,dóttir,systir,frænka,vinkona og síðast en ekki síst meyja.
Sunday, January 15, 2012
Friday, December 30, 2011
Enn eitt árið að kveðja............
Er ekki við hæfi að líta yfir árið svona þegar því er rétt að ljúka
Fyrir það fyrsta þá finnst mér eins og 2011 hafi verið alveg einstaklega lengi að líða, allavega fyrrihluti þess. Kannski það hafi verið af því að ég gegndi mörgum hlutverkum fyrri hluta ársins. Ég var móðir og eiginlega faðir líka, námsmey í fullu námi sem þurfti að bregða sér af bæ endrum og eins til að stunda verknám í höfuðstaðnum og í höfuðstað norðurlands, ásamt því að sinna lokaritgerðarskrifum svo var frúin líka í c.a 40% vinnu sem hjúkrunarfræðingur og svo voru líka fyrirhugaðir flutningar okkar til annars lands ofarlega í huga. Mitt í þessu öllu þá átti yngsta barnið mitt erfitt í skólanum og á fleiri vígstöðvum og kom í ljós á vordögum að guttinn var með ADHD (athyglisbrest með ofvirkni). Tveimur tímum áður en ég fór í viðtal til að fá niðurstöður greiningar hans þá fékk ég að vita að móðuramma mín hefði látist þá um nóttina eftir stutt en erfið veikindi, sálfræðingurinn sem var með skilaviðtalið fékk dágóðan skammt af gráti blessaður.
Fyrri part ársins þá vissi ég nú bara stundum hreinlega ekki hvort ég var að koma eða fara, ég get svo svarið það. Ef ekki væri fyrir yndislega móður og tengdamóður þá hefði ég nú sennilega sprungið á limminu í miðju kafi, þær hjálpuðu mér mjög mikið og tengdamóðir mín elskuleg flutti nú bara til mín og sá um börn og buru á síðustu metrum lokaritgerðarskrifa. Og þessi elska dundaði sér við að pakka fullt af dóti niður í kassa fyrir mig í þokkabót.
Ég komst að því að mér finnst fjarbúð alveg afskaplega leiðinlegt fyrirbæri og það var eitt og annað sem kom upp á sem mér fannst ömurlegt að standa í ein. Ég komst líka að því að ég er sko miklu sterkari en ég hélt og ég skil bara hreinlega ekki enn af hverju ég gafst stundum ekki bara upp á öllu saman.
Að skila af sér lokaritgerðinni var ákaflega ljúf tilfinning, því fylgdi mikil gleði og ekki síst léttir. Fáfnir Freyr spurði mig hvort ég færi þá aldrei aftur í skóla, ég gat nú eiginlega ekki svarað honum 100% um það nema að það yrði að minnsta kosti ekki í bráð. Ég fór ekki í útskriftina mína (sé pínu eftir því) en ég átti bara ekki orku í það, var að vesenast með Darra hjá tanna í Reykjavík og fór vestur í jarðaförina hennar ömmu rétt fyrir útskrift. En að fá einkunnablaðið í hendurnar og pappíra um að nú væri ég útskrifuð sem hjúkrunarfræðingur með fyrstu einkunn var frábært, þetta gat ég þó það kostaði blóð, svita og tár. Námið var samt lang oftast skemmtilegt og ég kynntist líka frábærum konum í náminu og eignaðist nýja vini.
Svo var pakkað í flýti, húsið hreinsað hátt og lágt og afhent nýjum eigendum. Nökkvi flaug út á undan okkur og við reyndum að hafa gaman á afskaplega votri Humarhátið. Gott að vera í dekri hjá mömmu og pabba þessa síðustu daga á Íslandi. Út flugum svo við strákarnir þann 5 júlí og Yrsa kom svo til okkar tveimur mánuðum síðar.
Tíminn eftir að við fluttum hefur liðið hratt, enda nóg að gera og nóg að meðtaka. Allt hefur gengið frábærlega vel, eiginlega lyginni líkast. Við höfum upplifað svo margt jákvætt sem fjölskylda síðan við fluttum og líklega hefur það hjálpað til við aðlögunina. Það hefur komið mér mest á óvart að söknuðurinn eftir fjölskyldu og vinum er ekki óbærilegur eins og ég hræddist. Hann er til staðar en öðruvísi en ég hélt. Við höfum kynnst góðu fólki og ekki síst hvort öðru upp á nýtt.
Ég get sagt það nú að ég hræddist þessar miklu breytingar á högum okkar, og eiginlega hræddist ég þær mjög mikið. Ég er nefnilega vanaföst og það mjög, hef varla geta breytt heima hjá mér hvað þá meira og þarf alltaf að vita hvað gerist næst ;) Eiginlega þá var ég þess fullviss að ég mundi alltaf búa á Hornafirði og það stóð ekkert annað til. Svo ég hef nú komið sjálfri mér heldur betur á óvart með þessum flutningum ;) þetta er eitthvað svo ekki ég.
Hvað hefur svo þetta ár kennt mér?
- Fjarbúð er ekki fyrir mig, við hjónin fúnkerum betur saman en sundur.
- Ég er fjandanum sterkari.
- Ég get það sem ég ætla mér
- Breytingar eru bara alls ekki hættulegar og geta svo sannarlega getið af sér margt gott.
- Að brjóta upp vanan er ekki svo galið.
Kæru vinir ég óska ykkur gæfu, gleði og góðrar heilsu á nýju ári. Ég þakka kærlega fyrir frábæran vinskap og minningasköpun á liðnum árum.
Fyrir það fyrsta þá finnst mér eins og 2011 hafi verið alveg einstaklega lengi að líða, allavega fyrrihluti þess. Kannski það hafi verið af því að ég gegndi mörgum hlutverkum fyrri hluta ársins. Ég var móðir og eiginlega faðir líka, námsmey í fullu námi sem þurfti að bregða sér af bæ endrum og eins til að stunda verknám í höfuðstaðnum og í höfuðstað norðurlands, ásamt því að sinna lokaritgerðarskrifum svo var frúin líka í c.a 40% vinnu sem hjúkrunarfræðingur og svo voru líka fyrirhugaðir flutningar okkar til annars lands ofarlega í huga. Mitt í þessu öllu þá átti yngsta barnið mitt erfitt í skólanum og á fleiri vígstöðvum og kom í ljós á vordögum að guttinn var með ADHD (athyglisbrest með ofvirkni). Tveimur tímum áður en ég fór í viðtal til að fá niðurstöður greiningar hans þá fékk ég að vita að móðuramma mín hefði látist þá um nóttina eftir stutt en erfið veikindi, sálfræðingurinn sem var með skilaviðtalið fékk dágóðan skammt af gráti blessaður.
Fyrri part ársins þá vissi ég nú bara stundum hreinlega ekki hvort ég var að koma eða fara, ég get svo svarið það. Ef ekki væri fyrir yndislega móður og tengdamóður þá hefði ég nú sennilega sprungið á limminu í miðju kafi, þær hjálpuðu mér mjög mikið og tengdamóðir mín elskuleg flutti nú bara til mín og sá um börn og buru á síðustu metrum lokaritgerðarskrifa. Og þessi elska dundaði sér við að pakka fullt af dóti niður í kassa fyrir mig í þokkabót.
Ég komst að því að mér finnst fjarbúð alveg afskaplega leiðinlegt fyrirbæri og það var eitt og annað sem kom upp á sem mér fannst ömurlegt að standa í ein. Ég komst líka að því að ég er sko miklu sterkari en ég hélt og ég skil bara hreinlega ekki enn af hverju ég gafst stundum ekki bara upp á öllu saman.
Að skila af sér lokaritgerðinni var ákaflega ljúf tilfinning, því fylgdi mikil gleði og ekki síst léttir. Fáfnir Freyr spurði mig hvort ég færi þá aldrei aftur í skóla, ég gat nú eiginlega ekki svarað honum 100% um það nema að það yrði að minnsta kosti ekki í bráð. Ég fór ekki í útskriftina mína (sé pínu eftir því) en ég átti bara ekki orku í það, var að vesenast með Darra hjá tanna í Reykjavík og fór vestur í jarðaförina hennar ömmu rétt fyrir útskrift. En að fá einkunnablaðið í hendurnar og pappíra um að nú væri ég útskrifuð sem hjúkrunarfræðingur með fyrstu einkunn var frábært, þetta gat ég þó það kostaði blóð, svita og tár. Námið var samt lang oftast skemmtilegt og ég kynntist líka frábærum konum í náminu og eignaðist nýja vini.
Svo var pakkað í flýti, húsið hreinsað hátt og lágt og afhent nýjum eigendum. Nökkvi flaug út á undan okkur og við reyndum að hafa gaman á afskaplega votri Humarhátið. Gott að vera í dekri hjá mömmu og pabba þessa síðustu daga á Íslandi. Út flugum svo við strákarnir þann 5 júlí og Yrsa kom svo til okkar tveimur mánuðum síðar.
Tíminn eftir að við fluttum hefur liðið hratt, enda nóg að gera og nóg að meðtaka. Allt hefur gengið frábærlega vel, eiginlega lyginni líkast. Við höfum upplifað svo margt jákvætt sem fjölskylda síðan við fluttum og líklega hefur það hjálpað til við aðlögunina. Það hefur komið mér mest á óvart að söknuðurinn eftir fjölskyldu og vinum er ekki óbærilegur eins og ég hræddist. Hann er til staðar en öðruvísi en ég hélt. Við höfum kynnst góðu fólki og ekki síst hvort öðru upp á nýtt.
Ég get sagt það nú að ég hræddist þessar miklu breytingar á högum okkar, og eiginlega hræddist ég þær mjög mikið. Ég er nefnilega vanaföst og það mjög, hef varla geta breytt heima hjá mér hvað þá meira og þarf alltaf að vita hvað gerist næst ;) Eiginlega þá var ég þess fullviss að ég mundi alltaf búa á Hornafirði og það stóð ekkert annað til. Svo ég hef nú komið sjálfri mér heldur betur á óvart með þessum flutningum ;) þetta er eitthvað svo ekki ég.
Hvað hefur svo þetta ár kennt mér?
- Fjarbúð er ekki fyrir mig, við hjónin fúnkerum betur saman en sundur.
- Ég er fjandanum sterkari.
- Ég get það sem ég ætla mér
- Breytingar eru bara alls ekki hættulegar og geta svo sannarlega getið af sér margt gott.
- Að brjóta upp vanan er ekki svo galið.
Kæru vinir ég óska ykkur gæfu, gleði og góðrar heilsu á nýju ári. Ég þakka kærlega fyrir frábæran vinskap og minningasköpun á liðnum árum.
Friday, December 23, 2011
Þorláksmessu-notalegheit
Sælt veri fólkið. Við tökum það ákaflega rólega á Þorláksmessu, yngsta barnið svaf til kl 10:30 takk fyrir. Móðurinni stóð ekki orðið á sama og var búin að athuga hvort drengurinn drægi andann. Jólin eru komin í hjartað og allt hér um bil löngu tilbúið svo við höfum það bara huggulegt í dag, jólatónlist fyllir húsið, hangikjötið kom loksins í morgun svo það verður hægt að búa til ekta jólalykt í kvöld :) Það á bara eftir að skipta á rúmum, setja upp jólatréð og skjótast smá í búð (nenni því nú samt eiginlega ekki).
Við tókum forskot á sæluna og borðuðum skötu í gærkvöldi ásamt tvennum vinahjónum og hundi. Hundurinn fékk reyndar ekki skötu en fékk að smá Royal búðing :) Áttum virkilega ánægjulega kvöldstund og þegar ég fór í bólið mátti ég minna sjálfa mig á að það væri ekki aðfangadagur daginn eftir, því jólastemmningin var komin yfir frúnna. Við erum vön að borða skötu hjá mömmu og pabba á Þorlák og það hefur venjulega verið upphafið að jólunum hjá okkur. Við gleymdum alveg að taka myndir af gúmmilaðinu og fólkinu. Það var bara tekin mynd af húsmóðurinni yfir pottunum og af borðinu :)
Skatan bragðaðist dásamlega, vantaði reyndar mömmurúgbrauð eða Hornafjarðarrúgbrauð með, og annað sem var á borðum bragðaðist líka dásamlega og allir borðuðu á sig gat.
Skötulyktin var til umræðu hér á heimilinu deginum áður, hvort allt myndi ekki anga eftir eldun þessa eðalgóðgætis, sérstaklega ef við fengjum ekki hangikjötið í tæka tíð, hvort það yrði þá skötulykt hér á jólunum. Sú hugmynd kom upp að banka upp á hjá nágrönnunum og segja að eldavélin væri biluð hjá okkur og spurja hvort við mættum sjóða fisk hjá þeim hehehehe. Við létum nú ekki verða af þessu enda treysti ég því ekki að við yrðum heil á eftir ;) Hins vegar lögðum við viskastykki vætt í ediki yfir pottinn og það snarvirkar.
Ég væri að ljúga ef ég segði að hugurinn hvarflaði ekki heim í fjörðinn fagra á þessum tíma. Það hefur samt verið minna um það að ég væri með kökkinn í hálsinum og tár á hvörmun en ég reiknaði með. Það hefur verið einn dagur (enn sem komið er) sem var sérlega erfiður og það helltist yfir mig þvílík viðkvæmni að meira að segja norsk jólalög sem ég hafði aldrei heyrt kölluðu fram tár. Mér fannst nú samt gott að finna þessa viðkvæmni því ég var farin að halda að ég væri ónæm. Það er líka gott að hugsa til fjölskyldunnar og vinanna, skoða myndir og láta hugan reika yfir góðar minningar.
Ég er ákaflega þakklát fyrir að eiga frí frá vinnu um jólin, það hefði nú eiginlega verið alveg ferlegt að halda jól á nýjum stað og vera svo að vinna í þokkabót. Ég fer að vinna á annan í jólum og vinn nokkra daga á milli hátíða. Á svo morgunvaktir bæði á gamlársdag og nýársdag.
Hér er rúmlega 7 stiga hiti í dag og smá rigningarúði. Ég græt það svo sem ekki að vera án snjósins. Mér finnst hann eiginlega frekar leiðinlegur, sérstaklega hér í öllum brekkubeygjunum upp í fjalli :) Það mætti samt alveg koma smá föl rétt fyrir klukkan 6 á aðfangadag er alltaf aðeins jólalegra að hafa hvíta jörð. Annars erum við ákveðin í því að eiga notaleg og ánægjuleg jól, þó svo það vanti snjó (erum nú alveg vön því) og ákveðnar hefðir sem hafa tilheyrt jólunum fram að þessu.
Kæru vinir og ættingjar nær og fjær!
Ég óska ykkur öllum gleði og friðar á jólum og farsældar og hamingju á nýju ári. Þakka góða vináttu, samveru og minningasköpun á liðnum árum.
Við tókum forskot á sæluna og borðuðum skötu í gærkvöldi ásamt tvennum vinahjónum og hundi. Hundurinn fékk reyndar ekki skötu en fékk að smá Royal búðing :) Áttum virkilega ánægjulega kvöldstund og þegar ég fór í bólið mátti ég minna sjálfa mig á að það væri ekki aðfangadagur daginn eftir, því jólastemmningin var komin yfir frúnna. Við erum vön að borða skötu hjá mömmu og pabba á Þorlák og það hefur venjulega verið upphafið að jólunum hjá okkur. Við gleymdum alveg að taka myndir af gúmmilaðinu og fólkinu. Það var bara tekin mynd af húsmóðurinni yfir pottunum og af borðinu :)
Skatan bragðaðist dásamlega, vantaði reyndar mömmurúgbrauð eða Hornafjarðarrúgbrauð með, og annað sem var á borðum bragðaðist líka dásamlega og allir borðuðu á sig gat.
Skötulyktin var til umræðu hér á heimilinu deginum áður, hvort allt myndi ekki anga eftir eldun þessa eðalgóðgætis, sérstaklega ef við fengjum ekki hangikjötið í tæka tíð, hvort það yrði þá skötulykt hér á jólunum. Sú hugmynd kom upp að banka upp á hjá nágrönnunum og segja að eldavélin væri biluð hjá okkur og spurja hvort við mættum sjóða fisk hjá þeim hehehehe. Við létum nú ekki verða af þessu enda treysti ég því ekki að við yrðum heil á eftir ;) Hins vegar lögðum við viskastykki vætt í ediki yfir pottinn og það snarvirkar.
Ég væri að ljúga ef ég segði að hugurinn hvarflaði ekki heim í fjörðinn fagra á þessum tíma. Það hefur samt verið minna um það að ég væri með kökkinn í hálsinum og tár á hvörmun en ég reiknaði með. Það hefur verið einn dagur (enn sem komið er) sem var sérlega erfiður og það helltist yfir mig þvílík viðkvæmni að meira að segja norsk jólalög sem ég hafði aldrei heyrt kölluðu fram tár. Mér fannst nú samt gott að finna þessa viðkvæmni því ég var farin að halda að ég væri ónæm. Það er líka gott að hugsa til fjölskyldunnar og vinanna, skoða myndir og láta hugan reika yfir góðar minningar.
Ég er ákaflega þakklát fyrir að eiga frí frá vinnu um jólin, það hefði nú eiginlega verið alveg ferlegt að halda jól á nýjum stað og vera svo að vinna í þokkabót. Ég fer að vinna á annan í jólum og vinn nokkra daga á milli hátíða. Á svo morgunvaktir bæði á gamlársdag og nýársdag.
Hér er rúmlega 7 stiga hiti í dag og smá rigningarúði. Ég græt það svo sem ekki að vera án snjósins. Mér finnst hann eiginlega frekar leiðinlegur, sérstaklega hér í öllum brekkubeygjunum upp í fjalli :) Það mætti samt alveg koma smá föl rétt fyrir klukkan 6 á aðfangadag er alltaf aðeins jólalegra að hafa hvíta jörð. Annars erum við ákveðin í því að eiga notaleg og ánægjuleg jól, þó svo það vanti snjó (erum nú alveg vön því) og ákveðnar hefðir sem hafa tilheyrt jólunum fram að þessu.
Kæru vinir og ættingjar nær og fjær!
Ég óska ykkur öllum gleði og friðar á jólum og farsældar og hamingju á nýju ári. Þakka góða vináttu, samveru og minningasköpun á liðnum árum.
Sunday, December 4, 2011
Jólin, jólin, jólin koma brátt.
Ég var búin að ákveða að þetta blogg yrði myndablogg. En ég hef ekki tekið neinar myndir svo kannski næsta blogg verði myndablogg.
Hér svífur andi jólanna yfir vötnum. Ég held að við hugsum öll heim til fjölskyldu og vina á einn eða annan máta núna á aðventunni. Yngri drengurinn uppgötvaði um daginn að norski jólasveinninn á ekki 12 bræður, og hann er ekkert fyrir það að veltast um byggðir landsins löngu fyrir jól til að setja smotterí í skó norskra barna. Honum var bent á að íslensku jólasveinarnir væru svo fjölhæfir og kraftmiklir að kannski leggðu þeir leið sína um allan heim og færðu íslenskum börnum eitthvað í skóinn, hann róaðist nú aðeins við það (held samt að hann sé næstum því hættur að trúa á þann skeggjaða).
Eldri börnin tala mest um að nú verði engin purusteik hjá ömmu og afa á jóladag, og þeirra helstu áhyggjur eru að móður þeirra takist ekki að láta puruna lukkast :) eru mikið búin að spurja hvort ég ætli ekki að æfa mig neitt í að elda purusteik. Ég hef ekki hugsað mér að taka neina æfingu í purugerð, læt bara á það reyna á jóladag hvort það tekst eða ekki.
Við hjónin vöknuðum upp við vondan draum þegar við áttuðum okkur á að nú yrði engin skata á þorlák, en við lifum það af. Kannski við prófum bara Lutefisk sem tengist jólahefðinni hér, spurning hvort hann sé nógu úldinn fyrir okkar smekk, mér skilst að hann lykti allavega illa.
Það er svo margt sem tengist jólunum í hugum okkar, að það verður skrítið að gera þetta allt öðru vísi þetta árið. Kaffi hjá mömmu og pabba seint á aðfangadagskvöld hefur verið hluti af okkar jólahefð, Purusteikin á jóladag ásamt stórfjölskyldunni á Hornafirði, áramótin hjá mömmu og pabba og að horfa á brennuna frá gömlu mjólkurstöðinni og nú síðustu árin höfum við alltaf hitt sama fólkið þar og sumir hafa skálað í koníaki (ég áttaði mig bara á því nú um daginn að það var orðið partur af áramótunum að hitta Bessý, Magga og börn þar).
Jólin í ár verða öðruvísi, en við ætlum að njóta þeirra saman þó söknuður eigi eflaust eftir að lita þennan tíma eitthvað aðeins. Er að spá í að kaupa stórt púsluspil, og svo getum við púslað og spilað til skiptis. Það er líka planið að hitta kunningja (íslendinga sem verða líka hér um jólin).
Norðmenn eru ekki eins ákafir í jólaskreytingum utandyra og við íslendingar, en það er nú einn og einn Öddi hér líka ;) Það er að verða jólalegt hér þó snjórinn sé ekki farinn að láta sjá sig en mér skilst að það gæti breyst í dag.
Ég er búin að vera á aðventukvöldi í vinnunni (með íbúunum) þar sem borðaður var jólamatur og jólasöngvar sungnir. Við vorum í íslenskri jólamessu í gær, hún var hátíðleg og að heyra ó, helga nótt fyllir alltaf hjartað af jólum (samt öðruvísi en þegar sterkar hornfirskar karlmannsraddir syngja það) svo var jólaball á eftir. Í vikunni verður samvera hjá innflutningsbekknum hans Fáfnis Freys og er foreldrum, ömmum, öfum og systkinum boðið, allir eiga að koma með eitthvað matarkyns frá sínu heimalandi og krakkarnir munu verða með skemmtiatriði, við erum mjög spennt fyrir þessu. Svo skilst mér að við hjónin eigum eftir að fara á jólahlaðborð með vinnunni hans Nökkva.
Annars er aðalmálið á dagskrá núna að heimasætan læri norsku. Hún er að fara í viðtal í skólan hans Fáfnis í dag og mun að öllum líkindum verða aðstoðarmanneskja þar í desember. Við ákváðum að ath hvort þeim litist ekki vel á að fá sjálfboðaliða til að hjálpa til í skólastarfinu fram til jóla og það var svona vel tekið í það. Það er byrjunin og svo er hún aðeins að melta það hvort hún haldi áfram í atvinnuleit eða fari í skóla eftir áramótin.
Vona að þið séuð að njóta aðventunnar í stresslausum huggulegheitum ásamt vinum og ættingjum.
Bestu kveðjur til allra þarna úti.
Hér svífur andi jólanna yfir vötnum. Ég held að við hugsum öll heim til fjölskyldu og vina á einn eða annan máta núna á aðventunni. Yngri drengurinn uppgötvaði um daginn að norski jólasveinninn á ekki 12 bræður, og hann er ekkert fyrir það að veltast um byggðir landsins löngu fyrir jól til að setja smotterí í skó norskra barna. Honum var bent á að íslensku jólasveinarnir væru svo fjölhæfir og kraftmiklir að kannski leggðu þeir leið sína um allan heim og færðu íslenskum börnum eitthvað í skóinn, hann róaðist nú aðeins við það (held samt að hann sé næstum því hættur að trúa á þann skeggjaða).
Eldri börnin tala mest um að nú verði engin purusteik hjá ömmu og afa á jóladag, og þeirra helstu áhyggjur eru að móður þeirra takist ekki að láta puruna lukkast :) eru mikið búin að spurja hvort ég ætli ekki að æfa mig neitt í að elda purusteik. Ég hef ekki hugsað mér að taka neina æfingu í purugerð, læt bara á það reyna á jóladag hvort það tekst eða ekki.
Við hjónin vöknuðum upp við vondan draum þegar við áttuðum okkur á að nú yrði engin skata á þorlák, en við lifum það af. Kannski við prófum bara Lutefisk sem tengist jólahefðinni hér, spurning hvort hann sé nógu úldinn fyrir okkar smekk, mér skilst að hann lykti allavega illa.
Það er svo margt sem tengist jólunum í hugum okkar, að það verður skrítið að gera þetta allt öðru vísi þetta árið. Kaffi hjá mömmu og pabba seint á aðfangadagskvöld hefur verið hluti af okkar jólahefð, Purusteikin á jóladag ásamt stórfjölskyldunni á Hornafirði, áramótin hjá mömmu og pabba og að horfa á brennuna frá gömlu mjólkurstöðinni og nú síðustu árin höfum við alltaf hitt sama fólkið þar og sumir hafa skálað í koníaki (ég áttaði mig bara á því nú um daginn að það var orðið partur af áramótunum að hitta Bessý, Magga og börn þar).
Jólin í ár verða öðruvísi, en við ætlum að njóta þeirra saman þó söknuður eigi eflaust eftir að lita þennan tíma eitthvað aðeins. Er að spá í að kaupa stórt púsluspil, og svo getum við púslað og spilað til skiptis. Það er líka planið að hitta kunningja (íslendinga sem verða líka hér um jólin).
Norðmenn eru ekki eins ákafir í jólaskreytingum utandyra og við íslendingar, en það er nú einn og einn Öddi hér líka ;) Það er að verða jólalegt hér þó snjórinn sé ekki farinn að láta sjá sig en mér skilst að það gæti breyst í dag.
Ég er búin að vera á aðventukvöldi í vinnunni (með íbúunum) þar sem borðaður var jólamatur og jólasöngvar sungnir. Við vorum í íslenskri jólamessu í gær, hún var hátíðleg og að heyra ó, helga nótt fyllir alltaf hjartað af jólum (samt öðruvísi en þegar sterkar hornfirskar karlmannsraddir syngja það) svo var jólaball á eftir. Í vikunni verður samvera hjá innflutningsbekknum hans Fáfnis Freys og er foreldrum, ömmum, öfum og systkinum boðið, allir eiga að koma með eitthvað matarkyns frá sínu heimalandi og krakkarnir munu verða með skemmtiatriði, við erum mjög spennt fyrir þessu. Svo skilst mér að við hjónin eigum eftir að fara á jólahlaðborð með vinnunni hans Nökkva.
Annars er aðalmálið á dagskrá núna að heimasætan læri norsku. Hún er að fara í viðtal í skólan hans Fáfnis í dag og mun að öllum líkindum verða aðstoðarmanneskja þar í desember. Við ákváðum að ath hvort þeim litist ekki vel á að fá sjálfboðaliða til að hjálpa til í skólastarfinu fram til jóla og það var svona vel tekið í það. Það er byrjunin og svo er hún aðeins að melta það hvort hún haldi áfram í atvinnuleit eða fari í skóla eftir áramótin.
Vona að þið séuð að njóta aðventunnar í stresslausum huggulegheitum ásamt vinum og ættingjum.
Bestu kveðjur til allra þarna úti.
Sunday, November 27, 2011
1. sunnudagur í aðventu
Þá er aðventan formlega byrjuð. Ég er ekki komin í neitt sérlega mikið jólaskap, er þó búin að kaupa megnið af jólagjöfunum sem munu fara í ferðalag til Íslands, baka eina smákökusort og kaupa jólasteikina. Er ekkert farin að spá í jólakortaskrif, ætti kannski að reyna að koma mér í þann gírinn.
Þetta er sá tími ársins sem ég reikna með að við fjölskyldan munum finna fyrir slatta af heimþrá, kannski það sé þess vegna sem undirmeðvitundin kemur því þannig fyrir að ég er ekki að hugsa svo mikið um jólin. Hef ekki fundið hjá mér þörf til að setja jólalög í geislaspilaran, en það er nú bara nóvemer ennþá. ´
Í dag verður kveikt á jólatré Hornafjarðarbæjar, samkoma sem við höfum mætt á síðan byrjað var að gera þetta með pompi og prakt. Skrítið að vera ekki viðstödd nú, þetta hefur alltaf ýtt aðeins við jólagleðinni í hjartanu. Nökkvi og eldri börnin fóru á svona jólasamkomu inn í Bergen í gær, það var hávaðarok og grenjandi rigning og sá stutti vildi alls ekki með svo niðurstaðan varð sú að við tvö urðum eftir heima. Hersingin kom heim aftur blaut inn að beini, þrátt fyrir að vera útbúin í pollagalla og með regnhlíf að vopni, en þeim fannst gaman.
Hef planað að í þessari viku munum við draga fram jólaskrautið, koma jólaljósum í gluggana og kannski baka eitthvað, hlusta á jólalög og reyna að finna fyrir smá jólum í hjartanu. Skítt með það þó að heimþráin fylli hjartað í leiðinni og þó það falli nokkur tár (best að muna að kaupa slatta af tissjú), það verður bara að vera þannig og tilheyrir bara svona hátíðum að vera aðeins meyr.
Annars gengur lífið sinn vanagang hér hjá okkur. Yndislegt að fylgjast með litla manninum blómstra og finna ró í huga og kropp til að dunda sér. Eldri drengurinn hefur verið að skrifa ritgerð á norsku sem gekk mjög, og í síðustu viku tók hann tvö próf í norsku (átti að skrifa texta um eitthvað) og segir það hafa gengið vel.
Það gengur illa að finna vinnu fyrir heimasætuna en hún sættist á að líklega væri gáfulegast að fara á norskunámskeið. Okkur var bent á svona námskeið fyrir nýbúa, hún fór og hitti þar ráðgjafa sem vildi frekar að hún hefði samband við framhaldsskólan til að athuga hvort þeir tækju við henni í innflytjendabekk þar, væri fín leið til að læra norskuna og þar væri hún innan um jafnaldra. Ráðgjafanum fannst daman ekki passa inn í þann hóp sem hún var með á námskeiði núna (miðaldra karlmenn frá Íran). Hún ætlaði að heyra í ráðgjafa við framhaldskólan og Yrsa átti að hafa samband á þriðjudag. Vona svo sannarlega að þeir vilji taka við henni þarna, en þetta snýst víst allt um einhverjar reglur. Hún hefur verið að sækja um ýmislegt en það ekki skilað neinu, í einni búð sem hún fór í var verslunarstjórinn nokkuð jákvæður og sagðist endilega vilja að hún kæmi og talaði við sig þegar hún væri búin að læra smávegis í málinu. Skiljanlega þá ráða menn frekar þá sem tala tungumálið.
Ég er að vinna þessa helgina á annarri deild en venjulega. Þar er einn þjónustuþeginn innflytjandi, hefur búið í landinu í tugi ára en virðist hafa gleymt norskunni og það þarf að tala við hann á ensku sem hann virðist skilja svona sæmilega. Þegar ég er í vinnunni þá stilli ég mig greinilega í einhvern norskan gír, og þegar ég þurfti að skipta úr norsku yfir í ensku lenti ég í vandræðum (samt tala ég og skil ensku bara alveg ágætlega), mér gekk virkilega illa að koma því yfir á ensku sem ég þurfti að segja við viðkomandi, ætli það sé af því að ég lærði ensku á íslensku eða hvað? Heilinn er merkilegt fyrirbæri.
Vona að þið finnið jólaskapið og jólagleðina í hjartanu í dag.
Ég sendi kærar kveðjur yfir hafið og heim.
Monday, November 14, 2011
Löngun
Plómutré og eplatré. Hljómar það ekki dásamlega, staðsett í garði nálægt sjó. Öldugljáfur, sólsetur og bátkæna sem siglir hjá.......................................
Monday, November 7, 2011
NorskurDraumur
Vaknaði hissa í morgun, mig hafði dreymt á norsku ekki lengi en draumurinn snérist um samtal. Man ekki um hvað var rætt man bara að það var á norsku. Þetta var eitthvað svo skrítið samt, held að þetta hafi vakið mig.
Það er svoldið langt síðan að ég upplifði það í vinnunni að ég var að telja á norsku og það fyrir sjálfa mig. Ég var að telja pillur og fór næstum að skellihlæja þegar ég fattaði að ég taldi á norsku. Sennilega setur maður sig í einhvern ákveðinn gír áður en maður stígur inn á vinnustaðinn, í síðustu viku þá tók ég eftir því að ég geri minna af því að hugsa setninguna sem ég ætla að segja á íslensku fyrst og koma henni yfir á norsku í huganum áður en ég segi hana, ég er farin að hugsa setningarnar á norsku og ef þær hljóma illa í hausnum á mér þá reyni ég að betrum bæta áður en ég sleppi þeim út fyrir varirnar, það gengur svona og svona. Í almennum samræðum svona um daginn og veginn við vinnufélagana vantar mig oft orð og þá þarf að tala í kringum hlutina til að skiljast, það verður til þess að það verður ekki eðlilegt "flæði" í samræðunum (vona að þið fattið hvað ég meina), stundum verður þetta meira svona eins og spurningar og svör á prófi og ég á það til að láta það pirra mig, en þetta kemur hægt og sígandi.
Ég er aðeins að venjast því að þurfa að tala norsku fyrir framan Nökkva og við hann. En við þurfum þess þegar við hittum fjölskylduráðgjafan, læknirinn, kennarana og aðstoðarmanninn. Fyrst fannst mér það alveg hreint fáránlegt og roðnaði og stamaði :) en þetta er að venjast, ég er allavega hætt að roðna ;)
Sendi góðar kveðjur út í alheiminn og kveð að norskum sið til að vera í stíl við pistilinn.
Ha de bra
Það er svoldið langt síðan að ég upplifði það í vinnunni að ég var að telja á norsku og það fyrir sjálfa mig. Ég var að telja pillur og fór næstum að skellihlæja þegar ég fattaði að ég taldi á norsku. Sennilega setur maður sig í einhvern ákveðinn gír áður en maður stígur inn á vinnustaðinn, í síðustu viku þá tók ég eftir því að ég geri minna af því að hugsa setninguna sem ég ætla að segja á íslensku fyrst og koma henni yfir á norsku í huganum áður en ég segi hana, ég er farin að hugsa setningarnar á norsku og ef þær hljóma illa í hausnum á mér þá reyni ég að betrum bæta áður en ég sleppi þeim út fyrir varirnar, það gengur svona og svona. Í almennum samræðum svona um daginn og veginn við vinnufélagana vantar mig oft orð og þá þarf að tala í kringum hlutina til að skiljast, það verður til þess að það verður ekki eðlilegt "flæði" í samræðunum (vona að þið fattið hvað ég meina), stundum verður þetta meira svona eins og spurningar og svör á prófi og ég á það til að láta það pirra mig, en þetta kemur hægt og sígandi.
Ég er aðeins að venjast því að þurfa að tala norsku fyrir framan Nökkva og við hann. En við þurfum þess þegar við hittum fjölskylduráðgjafan, læknirinn, kennarana og aðstoðarmanninn. Fyrst fannst mér það alveg hreint fáránlegt og roðnaði og stamaði :) en þetta er að venjast, ég er allavega hætt að roðna ;)
Sendi góðar kveðjur út í alheiminn og kveð að norskum sið til að vera í stíl við pistilinn.
Ha de bra
Subscribe to:
Posts (Atom)