Monday, October 17, 2011

Haustfrí og handleiðsla

Í síðustu viku var haustfrí í skólum Hordaland-fylkis. Drengirnir á heimilinu voru hæstánægðir með fríið og fannst ljúft að þurfa ekki að vakna eldsnemma samt sem áður fer það ekkert vel í þann yngri þegar rútínan ruglast, en við áttum nú samt nokkuð fína viku. Það er verið að gera breytingar á netaverkstæðinu svo pabbinn er búinn að vera í fríi líka. Mamman tók af því tilfefni nokkrar aukavaktir en við gerðum líka skemmtilega hluti saman. Fórum meðal annars í Sædýrasafnið og Vil vita og allir skemmtu sér vel.


Í Sædýrasafninu snérist málið aðalega um að finna svör við spurningum sem voru faldar á víð og dreif um safnið. Hér er áttum við bara eftir að finna eina spurningu og vorum að skoða kort af safninu til að reyna að finna hvar hún gæti hugsanlega verið.
 

Heimasætan náði svona gasalega skemmtilegri mynd af móður sinni sem er sennilega á þessu augnabliki alveg yfirkeyrð af talanda þriggja málglaðra barna sem tala hvert ofan í annað :)


Önnur skemmtileg af húsmóðurinni sem er þarna að missa sig í að spila Tetris í Vita vil ;)
Sem sagt búin að vera fín vika. Það er líka gaman að upplifa þetta með yngsta guttanum nú og finna hvað lyfið er að hjálpa honum, hann var jú spenntur og svoldið á yfirsnúning en það var ekki sífelldur grátur og hann gerði helling, var ekki bara eins og þeytispjald út um allt og náði ekki að festa sig við neitt. Held að hann hafi notið þess betur og við nutum þess ennþá betur að vera með honum, enginn kvíðahnútur vegna hræðslu við að lenda í óviðráðanlegum aðstæðum.

Við fórum líka í heimsókn nr 2 til BUP í vikunni til að ræða hvernig gengi með lyfið. Það var ótrúlegt að sjá hvernig pilturinn sat núna næstum alveg rólegur með okkur (og bað ekki um að fara heim á 2 mín fresti) og læknirinn var ánægður með árangurinn. Sálfræðingurinn sagði hins vegar ekki margt hann er einn af þeim sem virðast hverfa inn í sig og leit út fyrir að vera mjög mikið til baka og vera að farast úr feimni. En á þessum fundi var kona sem er fjölskylduráðgjafi og hún bauð fram aðstoð sína, því við höfðum sagt á fyrri fundi að við vildum gjarnan fá smá aðstoð með hvernig væri best að vinna með drengnum okkar og hvernig væri best að bregðast við aðstæðum, fá smá handleiðsu í hvernig maður hjálpar barni með ADHD að takast á við lífið. Okkur hjónum er boðið að hitta þessa konu 1x í viku nú fram að jólum, þar sem hún ætlar að fara með okkur í gegnum ýmislegt sem við eigum að geta nýtt okkur. Skipulag, umbunarkerfi, hvernig best er að bregðast við erfiðum aðstæðum og fleira. Ég er svo glöð og ánægð með þetta að ég er alveg að springa, hef lent í svipuðum aðstæðum áður og fannst ég alltaf vera að biðja um aðstoð og spurja hvað get ég gert til þess að hjálpa barninu mínu en ekkert gerðist. Mig langaði bara að knúsa þetta fólk í klessu ég get svo svarið það, þetta hefur allt gengið svo hratt og vel fyrir sig og okkur er fært allt á silfufati þurfum varla að biðja um neitt :) Ég hlakka virkilega mikið til að hitta þessa konu núna í vikunni. Held að okkur óskipulögðu hjónunum veiti ekki af smá handleiðslu þar sem barnið þarf sko skipulag og mikla rútínu.

Heimasætan er ekki enn komin með vinnu en er búin að senda umsókn á fleiri leikskóla, erum að vonast eftir svari frá einum í þessari viku, þar sem umsóknarfrestur rann út á föstudag. Krossa putta og vona að hún fái þetta.

Annars er bara allt gott að frétta, lífið gæti bara eiginlega ekki verið betra held ég svei mér þá. Ég er alltaf að reyna að koma mér í gírinn með að fara að gera eitthvað í áhugamálunum mínum, saumaskap, prjónaskap og myndlist. Hausinn er fullur af hugmyndum, svo fullur að stundum finnst mér hann vera að springa, ég bara kem mér ekki að verki. Saumaði mér reyndar vinnuflík (scrubs) um daginn, því mig vantaði nauðsynlega eitthvað með vösum. Fékk sængurver á spottprís og sneið og saumaði upp úr því þessa fínu vinnuflík á einni kvöldstund. Langar að gera mér fleiri, svo langar mig að sauma mér peysu/tuniku, og kannski sauma ég kjól eða pils á hana systurdóttur mína úr afgangnum af sængurverinu.

Þetta er orðið hið sæmilegasta blogg og ætli ég hætti ekki núna svona svo þú lesandi góður farir ekki að hrjóta.

Kærar kveðjur út í haustið ég ætla að fá mér kaffibolla, kveikja á kerti og halda áfram að hugsa um allt sem mig langar að búa til.


10 comments:

Anonymous said...

En gaman að geta lesið fréttir af ykkur. Lífið fer greinilega vel með ykkur í Norge. Njótið vel.
Kv
Anna Bogga

Anonymous said...

knús á ykkur elsku Íris, þið eruð svoo dugleg :) Gott að allt gengur svona vel hjá þeim yngsta, hann er snillingur eins þú :*

Knúsaðu kallinn þinn frá mér
kv
Kolla

Egga-la said...

Flott að þetta hafi gengið svona vel hjá BUP. Við höfum alltaf haft sömu sögu að segja hér í Noregi með ppt og það sem við þurfum á að halda. Kannast líka við þetta með hobbý, er alltaf að fara að föndra, fullt af hugmyndum en lítið framkvæmt.

Ameríkufari segir fréttir said...

Mikið er yndislegt að lesa hvað gengur vel með stráksa og hvað þið eruð ánægð. Kannski fara kubbarnir að smella saman allir núna:) Þú dugleg að geta sniðið þér stakk eftir vesti, það er hlutur sem ég gæti ekki. Kv. frá Cary.

Gudny Svavars said...

Kveðjur til ykkar. Guðný Svavars

Anonymous said...

Gaman að lesa og heyra hvað allt gengur vel. Gat ekki annað en glott þegar þú segist ætla að fá þér kaffi og telur ekki upp sígó :) Ertu hætt að reykja frænka sæl? Frábært með drenginn, gott að heyra að allt virkar :) Knús í hús

Anonymous said...

VILVITE.

bara til að benda þér á það móðir, ekki vil vita eða vita vil

dóttir þín.

Íris said...

hahahahaha ok allt í lagi þá

Heiða Björk said...

Svo fallegt hvernig Fáfnir brosir til pabba síns á fyrstu myndinni :)

Greinilega stuð á ykkur þarna í Norge

Anonymous said...

Eins og alltaf svo gaman að lesa Íris mín, og engin hætta á hrotum. Yndislegt að heyra að þarna skuli vera góða hjálp að fá fyrir litla kútinn, það er jú fyrir öllu. Bestu kveðjur og knús í þitt hús frá gömlu frænku...Sæa.