Tuesday, February 7, 2012

Peningar og reikningar

Virkilega áhugaverður titill ekki satt? Kannski ekki :)

Þannig er mál með vexti að við heimasætan brugðum okkur í bankann til að borga námskeiðsgjaldið hennar. Við vorum með gíróseðilinn meðferðis og peninga í lausu til þess að borga með.

Ég er að vinna í því að gera "fullorðna" barnið mitt að sjálfstæðum einstakling sem getur bjargað sér (eða er það ekki það sem uppeldi felur í sér) svo hún átti að sjá um bankaviðskiptin og ég var bara með til halds og trausts (svona fluga á vegg, ég veit meira svona risafluga). Við byrjuðum á að taka númer og biðum sallarólegar eftir því að röðin kæmi að okkur. Þurftum nú ekki að bíða lengi í þetta sinn (sem var kærkomið) og heimasætan skellir gíróseðlinum á borðið og segist ætla að borga hann.

Gjaldkerinn handfjatlaði seðilinn og spurði svo hvort heimasætan væri með skilríki, hún var bara með gamalt bankakort frá Íslandi (frekar beyglað og slitið) því hér eru þeir ekki viljugir að láta mann hafa bankakort með mynd fyrr en maður hefur verið í viðskiptum við bankann í einhvern tíma. Gjaldkerinn handfjatlaði gamla bankakortið og var eitthvað vandræðaleg og spurði hvort við værum ekki með neitt betra en þetta t.d vegabréf. Þá ákvað risaflugan (ég) að hætta að dandalast á veggnum og skipta mér af, ég sagði svo ekki vera, við hefðum ekki gert okkur grein fyrir að við þyrftum vegabréfið til að fá að borga reikning, við værum nú helst ekki með vegabréfin á okkur að staðaldri. Gjaldkerinn hélt áfram að vandræðast eitthvað og pikka inn í tölvuna, ég nefndi að vegabréf heimasætunnar hefði jú verið skannað inn hjá þeim þegar hún fékk bankareikning hjá þeim, hvort það væri ekki nóg. Hún þurfti nú að fara og tala við einhvern til þess að athuga það.

Það var nú aðeins farið að síga í mig þegar hér var komið, hvernig gat þetta verið svona mikið mál að fá að borga einn skitinn reikning. Það var ekki eins og þetta væri einhver svimandi upphæð. Mundi allt í einu að ég var með vegabréfið mitt í töskunni, því ég hafði verið í Apótekinu daginn áður að sækja lyf. Svo þegar gjaldkerinn kom til baka sagði ég henni að ég væri með vegabréf ef það auðveldaði málið eitthvað. Hún muldraði eitthvað og byrjaði að pikka inn í tölvuna á ný og sagðist svo taka íslenska bankakortið sem gild skilríki í þetta skiptið, en þegar heimasætan rétti henni svo beinharða peninga fyrir reikningnum þá vandaðist nú málið aftur. Það gekk ekki upp, gjaldkerinn sagði að auðveldast væri að taka þetta beint út af bankareikningi heimasætunnar, ég sagði að það væri ekki nóg inn á honum til þess. Nú vildi gjaldkerinn fá að leggja peninginn inn á bankareikninginn og skuldfæra svo gíróseðilinn út af honum.............................hún fékk jú leyfi til þess blessunin svo okkur tókst nú að borga þetta fyrir rest.

Hverjum hefði grunað að það væri svona mikið mál að fá að borga einn gíróseðil....

Mér skilst að það sé beðið um almenninleg skilríki (ekki gamalt íslenskt bankakort) í bankanum, sama hvað maður er að gera. Þetta eru einhverjar reglur sem eiga að hindra peningaþvætti og fleira svindl, á sem sagt að vera hægt að rekja allar færslur.

Góðar stundir.

11 comments:

Anonymous said...

hahahhahah það er eins gott að hafa nógan tíma til að skreppa í bankan og ég tala nú ekki um að hafa kannski læsta skjalatösku meðferðis með öllum tiltækum skilríkjum hahahhaha Alltaf jafn gaman að lesa pislana frá þér kæra frænka. Knús á alla Kv Hildur móðursystir

Anonymous said...

Já Íris mín kannski að íslensku útrásarvíkingarnir hafi alltaf verið með fullt af seðlum í þvotti í erlendum bönkum!!!

Anonymous said...

Hó, hó Ásgerður nafnlaus hér fyrir ofan í þvottakommentinu :-) Bestu kveðjur til Noregs.

Frú Sigurbjörg said...

Já! Spes!

Anonymous said...

Sinn er siður í landi hverju, hahaha
Kveðja Guðlaug frænka

Egga-la said...

Okkar á milli þá hef ég aldrei stigið mínum fæti inn í norskan banka fyrir utan fyrsta árið mitt hérna. Komst að því að það er miklu betra að skifta við netbankann!! Miklu minna vesen.

Arna Ósk said...

Þeir verða að koma sér upp svona "Gunnu Steina" þarna í norsku bönkunum! Þeir fá samt ekki okkar ;)

Saknaðar knús til ykkar allra.

Heiða Björk said...

Það er allt svo mikið vesen á "Íslandi" í dag!

Anonymous said...

Tek undir með Örnu....Allir bankar eiga að hafa eina Gunnu Steina! Kærust í kotið frá okkur Bróa.

Anonymous said...

gaman að lesa þetta blogg, holt fyrir alla Íslendinga að þurfa að nota bankaþjónustu í öðru landi. Þetta sem þið lentuð í er nefnilega eðlilegt, hér eru allir oðnir svo góðu vanir að það er erfitt að breyta til baka þar sem þetta á að fara svona fram hér líka (að sumu leiti reyndar)
Gaman að lesa bloggið þitt Íris mín, mun kíkja regluleg inn framvegis. kv Guðbjörg

Íris said...

Vertu ávallt velkomin Guðbjörg :)