Tuesday, August 28, 2012

Rútína og Matpakkar (lesist nesti)

Tókuð þið eftir því að elsku komman virkar :)

Ég elska sumarfrí en mér finnst samt rosalega notalegt þegar haustið skellur á með sinni rútínu. Þegar sólarhringurinn hjá börnunum er búinn að taka á sig frekar einkennilegar myndir þá er það bara lúxus þegar skólarnir byrja á ný.

Hér er vika númer tvö í skóla rúmlega byrjuð og hlutirnir að smella saman. Það er búið að eyða dágóðum tíma í að finna út úr strætósamgöngum fyrir heimasætuna. Hún er í skóla sem er rétt hinu megin við Sotra-brúnna (í Bergen) og þegar sú brú var byggð fyrir 40 árum þá reiknuðu þeir greinilega ekki með að íbúafjöldi Sotra mundi margfaldast, eða að fólki dytti í hug að búa á Sotra og vinna í Bergen. Brúin + vegirnir höndla ekki álagstímana í umferðinni og það myndast langar raðir af bílum á leið frá Sotra á morgnana og til Sotra seinnipartinn. Þetta veldur því að strætó getur engan veginn haldið áætlun og ef það verður slys á vegunum á þessari leið þá situr allt fast. Við virðumst vera búin að finna út úr því hvenær er best fyrir hana að taka strætó svo hún nái að mæta á réttum tíma, 7.9.13.

Ég rak augun í frétt á mbl.is mynnir mig um svívirðilegan kostnað foreldra við skólagöngu íslenskra barna. Ég get ekki sagt að ég þurfi að punga miklu út fyrir börnin mín. Í fyrra fengu strákarnir allt í skólanum, nema skólatösku og pennaveski, þá meina ég allt þ.m.t. stílabækur, blýanta, liti, möppur og strokleður. Það sama á við hjá yngri drengnum núna, en ég reiknaði nú með kostnaði í kringum framhaldsskólan hjá eldri börnunum í vetur, en annað kom í ljós.

Þau þurfa ekki að kaupa eina bók!!! Þau fá þær námsbækur sem þau þurfa lánaðar á skólabókasafninu, þurfa að sjálfsögðu að greiða fyrir þær ef þau skemma þær. Við keyptum nú blýpenna, strokleður, yddara og penna, ég veit ekki hvort þau geta fengið slíkt í skólanum. Í framhaldsskólanum eiga þau að nota tölvur til að glósa og vinna á. Þau mega nota sínar eigin tölvur en geta líka keypt eða leigt tölvur í gegnum skólan. Þar sem þeirra tölvur eru orðnar frekar þreyttar þá ákváðum við að kaupa fartölvur í gegnum skólan.

Þetta eru fínar HP tölvur (afinn er ánægður með það), 33.400 kr (íslenskar) þurfti ég að borga fyrir stykkið af tölvunni og þær voru afhentar í flottum tölvu-skóla-bakpoka. Ég er alveg sátt með þetta.

Unglingunum lýst vel á sig í nýjum skólum og virðast bara sátt. Yngsti fjölskyldumeðlimurinn er alsæll í sínum skóla eins og áður, held hann sé næstum jafn feginn rútínunni og foreldrar hans.

Það eru svo sem ekki bara jákvæðir hlutir við skólana, hér tíðkast ekki að bjóða upp á heitan mat í hádeginu og ávaxtabita um miðjan morgun eins og við erum vön frá Höfn. Hér taka allir með sér hina margfrægu norsku matpakka.........

Ég viðurkenni það fúslega að mér hundleiðist allt þetta nesti. Eldri börnin sjá nú um sitt að mestu sjálf, kemur fyrir einstaka sinnum að mamman er voða góð og smyr ofan í þau. Þau hafa líka möguleika á að kaupa sér samlokur, jógúrt og drykki í skólanum ef það hentar betur.

Að útbúa nesti ofan í þann yngsta er kvöl og pína. Hverjum hefði grunað að við hjónin eignuðumst barn sem ekki vill borða.....Það eru nú kannski smá ýkjur að hann borði ekkert, en það sem er hægt að taka með sér sem nesti borðar hann ekki. Honum líkar ekki brauð, nema úr samlokugrilli... Jógúrtið og skyrið hér finnst honum vont. Hann borðar ekkert álegg, ekkert ekki einu sinni súkkulaðiálegg (er búin að prófa). Einu ávextirnir og grænmetið sem hann leggur sér til munns eru epli og gulrætur, það finnst honum ógirnilegt þegar það er búið að liggja í nestisboxinu í nokkra tíma fyrir máltíð. 

Hann var búinn að sættast á eina gerð af rúnstykkjum, og vildi bara hafa smjör á þeim, ok og mér til mikillar gleði þá borðaði hann alveg 1/4 af því í skólanum, það var betra en ekki neitt. En svo var þessi tegund ekki til og hann fékk með sér aðra tegund, neibb ekki rétt gerð svo það var ekki smakkað. Við erum að tala um að barnið borðar morgunmat hér heima milli 6 og 6:30 og svo kemur hann heim aftur á milli kl 15 og 16. Mér finnst þetta hræðilega langur tími án matarbita, og ekki fær hann næringu úr ávaxtasafa eða slíku því hann drekkur bara vatn í skólanum.....

Það fer að líða að því að ég geti farið að taka myndir og sýna ykkur hvernig við búum. Hægt og sígandi er allt að verða búið að fá sinn stað hér innan húss.

Góðar stundir.

2 comments:

Anonymous said...

Gaman að lesa eins og alltaf Íris mín. Gott að ally gengur vel. Kveðja Guðlaug móðursystir

Anonymous said...

Það verður gaman að sjá myndir. Einhvernveginn finnst mér auðveldara að sjá allt fyrir mér með myndum. Gangi ykkur allt í haginn og mundu, stráksi borðar þegar hann verður svangur!Kærust frá okkur Bróa.