Ég hef eignast aðdáanda. Hann er kominn yfir nírætt blessaður en þegar hann veit af mér í vinnu þá vill hann fá íslendinginn til sín. Hann var svo yfir sig ánægður þegar hann vissi að ég væri frá Íslandi og hann þarf mikið að spjalla um Ísland. Mér finnst það ekki leiðinlegt heldur.
Hann segir mér sögur. Hann var á bát við strendur Íslands sem ungur maður. Hann veiddi síld, skilst mér og þeir lönduðu oft á Íslandi. Hann hafði komið til Vestmannaeyja, Siglufjarðar, Seyðisfjarðar og Akureyrar. Þetta voru staðirnir sem hann nefndi en hann segist hafa komið víða við. Augun ljóma þegar hann segir frá. Hann fór m.a á ball á Akureyri, ætlaði í bíó en endaði á dansleik og dansaði við margar fallegar íslenskar stúlkur. Hann segist hafa orðið ástfanginn á Íslandi og átt stúlku (kærustu) þar, en þegar komið var að því að halda á ný til Noregs þá vildi hún ekki fara með honum. Fannst það alltof langt. Í dag hefði það ekki þótt tiltökumál að bregða sér á milli landa til að elta ástina. Svo endar hann yfirleitt samtöl okkar á því að spurja hvort við eigum ekki bara að skella okkur saman til Íslands :) Hann mundi glaður koma með mér.
Síðast þegar við spjölluðum þá talaði hann um að hann hefði séð eldgos á Íslandi. Þeir hefðu verið á sjó og séð það frá hafi. Hann nefndi Vestmannaeyjar í þessu samhengi en ég fæ það ekki til að stemma við það að hann hafi verið mjög ungur þegar hann var að fiska við Ísland. Næst þegar við hittumst þá ræðum við þetta betur.
Gaman að heyra þessar sögur. En ég hef hitt annan eldri mann, sem stundum er gestkomandi á hjúkrunarheimilinu, sem hefur fiskað við Ísland. Þeir hafa eflaust margir verið á Íslandsmiðum á sínum yngri árum.
Góðar stundir
8 comments:
Gaman að þessu! Hann hefur séð Heklu gjósa...eða ég giska á það!! Kveðja héðan úr firðinum fagra, Alla Fanney
Gaman að þessu :) Knús frá Guðlaugu móðursystur
Vinnustaðarómans ;) Gaman að þessu :)
Kv. Arna
Hahhaha þeir laðast að þér enn :)
gaman að þessum hitting .
Hjartans þakkir fyrir það mig og okkur stelpurnar mínar
kv Anna
Æ en yndislegt, !!!
Þó ég sé ekki orðin níræð þá gleymdi ég nú samt að kvitta með nafni.
Knús..Sæa
En yndisleg tenging fyrir ykkur, get vel ímyndað mér að þið eigið hlýjar og skemmtilegar samræður : )
Gaman að þessu. Svona var þetta með Hestnes afa, hann kom frá Noregi til að kenna Íslendingum að veiða og verka síld. Nú svo urðum við öll til sjáðu til! Kveðja frá okkur Bróa
Post a Comment