Monday, May 6, 2013

Plan um að hafa plön

Ég hef þurft að hitta heimilislækninn minn alltof oft undanfarið. Svo oft að ég er næstum orðin leið á honum blessuðum. Hann er reyndar dálítið kómískur karakter svo ég get nú alltaf glott út í annað eftir að hafa verið hjá honum.

Málið er að ég er enn að vinna mig upp úr veikindunum/áfallinu/kastinu (eða hvað maður á að kalla þetta leiðinda ástand), er ennþá ekki farin að vinna mín 70%. Vinn c.a 40% og er á læknisvottorði hin 30%. Vegna þessa þarf ég að hitta lækninn reglulega, sem er vel, til þess að endurmeta stöðuna. En það felst vanalega í því að ég segi honum hvernig gengur í sjúkraþjálfun og vinnunni, já og bara hvernig gengur að takast á við hverdaginn. Ég vil nú reyna að fá fram hans mat á stöðunni líka, hvað hann telji að sé gott að gera í stöðunni og hvort ég eigi að prófa að vinna meira eða hvort það sé vitleysa. Hann hinsvegar hefur stuttan tíma til að ræða málin (15-20 mín á sjúkling) svo honum finnst ágætt (eða næstum því ágætt) að ég segi honum hvað ég haldi að ég geti í sambandi við vinnuna. Þjálfun er víst mikilvæg og nánast eina meðferðin við vefjagigt (ef ég er með vefjagigt) svo skilaboðin sem ég fæ frá sjúkraþjálfanum og lækninum eru þau að ég þarf að eiga orku afgangs fyrir þjálfunina (ég finn vel að þjálfunin er að gera mjög mikið fyrir mig). Svo doktornum finnst ágætt ef ég segi bara hvað mér finnst. Undanfarið hefur hann átt það til að skella á mig erfiðum spurningum svona rétt í lok tímans, spurningum sem setja mig pínu út af laginu stundum.

Núna síðast henti hann mér á vigtina, rétt í lok tímans og því er nú andskotans ver og miður að hún hafði ekki sigið niður á við um gramm síðan í janúar helvísk. Svo spurði hann hvaða plön hefur þú varðandi það að léttast. Ég hinn týpíski átfíkill, var næstum stokkinn á hann í þeim eina tilgangi að lúskra á honum allhressilega. Andskotinn var að manninum, mín einu plön undanfarið hafa verið að stunda þjálfunina hjá sjúkrþjálfanum og gera æfingarnar heima sem hún hefur kennt mér, ásamt því að fara í göngutúra (nánast á hverjum degi) og koma mér í það ástand að geta mætt í vinnu sómasamlega. Já, og vera mamma og eiginkona og allt það. Svo þó að ég viti að ég þarf að léttast um tugi kílóa (og hefði þurft þess fyrir löngu síðan) og að það mun bara bæta ástand mitt þá hef ég ekki akkúrat verið að hugsa um það nákvæmlega núna.

Í stað þess að segja nákvæmlega þetta við aumingja lækninn (sem ég veit að bara vill vel) þá muldraði ég ofan í bringuna á mér að ég vissi að ég þyrfti að gera eitthvað og ég vissi líka vel hvað.......Mér láðist hinsvegar að segja manninum að ég væri gasalega ánægð með sjálfa mig ef plön mín um að komast fram hjá nammihillunni í búðinni án þess að fylla körfuna af gotteríi (sem ég æti svo flýti áður en ég kæmi heim svo ég þyrfti ekki að gefa með mér) gengju eftir.

Týpísk ég að geta ekki staðið með sjálfri mér og sagt að ég væri bara það mikill fíkill að nákvæmlega núna væri nóg fyrir mig að takast á við það að koma þjálfun og hreyfingu inn í rútínuna mína og þegar það væri orðið sjálfsagt fyrir mig gæti ég tekist á við hitt. Nei, nei, muldraði bara ég veit, ég veit. Svo svona til að toppa daginn þá hélt hann áfram að vinna vinnuna sína og fór að ræða reykingar og hvaða plön ég hafði varðandi þær.....................Nei hættu nú alveg hugsaði ég og blótaði í huganum, þurfti hann nú endilega að vinna vinnuna sína extra vel í dag. Hann bauð mér aðstoð sína í að hætta en sagði í leiðinni þú verður að vera tilbúin og upplögð. Svo í staðinn fyrir að segja mig langar að verða frísk, léttast og hætta að reykja en ég bara get ekki tekist á við það allt í einu, því þá gefst ég upp og tekst ekkert af þessu. Þá sagði ég, má ég hugsa málið þar til við hittumst næst.....

Manngreyið var bara að vinna sína vinnu, nákvæmlega eins og hann á að gera (var einmitt búin að vera að velta því fyrir mér af hverju hann væri ekkert búinn að spurja út í reykingar). Ég strunsaði hinsvegar fúl út frá honum og vildi bara vera látin í friði með mína vankanta og lesti. Týpískur fíkill jamm,jamm.

Ég hef hugsað mikið og veit að ég get ekki tekist á við þetta allt á einu bretti. Ég þarf að byrja á einu í einu og ná nokkuð góðum tökum á því áður en ég helli mér í það næsta. Ég dauðskammast mín líka fyrir það að vera REYKJANDI HJÚKRUNARFRÆÐINGUR Í YFIRVIGT, það er eitthvað sem bara passar ekki.

Svo nú hef ég ákveðið að vera með plön um plön þegar ég mæti hjá honum næst.

Fyrsta mál á dagskrá er að koma þjálfuninni/hreyfingunni í góða rútínu, er á góðri leið með það. Er með æðislega sjúkraþjálfara sem hefur leiðbeint mér vel og núna þegar ég tel mig tilbúna að fara að þjálfa í líkamsræktarstöð þá hefur hún boðist til að fara með mér fyrsta daginn og koma mér af stað. Ætlar að leiðbeina mér með æfingarnar sem ég nota núna, þ.e búa til prógramm fyrir mig með það í huga að léttast líka ekki bara styrkjast.

Annað mál á dagskrá. Er sem sagt að takast á við mataræðið eða aðalega sykur og sætindafíkn. Mataræðið er í sjálfu sér ekki svo slæmt. Þarf aðeins að taka til í narti og þessari sykurfíkn. Og vonandi þegar þjálfun og það leggst saman að byrja að léttast.

Þriðja mál á dagskrá, þegar annað er komið nokkuð vel í gang (vonandi í haust) verður að þyggja aðstoðina frá mínum velviljaða heimilislækni (sem vinnur vinnuna sína) við að hætta að reykja.

Fjórða mál á dagskrá var eiginlega að verða hávaxin en sá fram á að það gæti orðið andsk.. erfitt og tímafrekt svo ég felli þau plön út af dagskrá.

Mér finnst þessi plön mín um að hafa plön bara hljóma nokkuð vel og þessi plön um plön líta sæmilega út á prenti. Svo var partur af plönunum að gaspra þessu út yfir alheim sem væri kannski ákveðið aðhald í að standa við plönuð plön.

Góðar stundir.
Bestu kveðjur frá reykjandi hjúkrunarfræðingi í yfirvigt, sem stefnir á að verða "bara" hjúkrunarfræðingur í fyllingu tímans.

3 comments:

Anonymous said...

það er bara ágætt að taka eitt fyrir í einu á meðan þetta er að ganga yfir. Kveðjur til ykkar frá Guðnýju Sv.

Anonymous said...

Já það er gott að gera plan og muna svo að taka bara eitt í einu ekki allt og gefast svo upp. Komdu hreyfingunni í mikið gott mál áður en þú byrjar á hinu, hreyfingin er svo mikilvæg fyrir okkur. Þessi hel..... kuldi hefur sett mín plön í bið, get þetta ekki. Væri kannski ráð að flytja bara til Spánar á sumrin og svo til Ástralíu þegar vetur gengur í garð. Værir kannski til í að koma með mér ahahahahhaha Baráttukveðja frá Hildi móðursystur

Íris said...

Hvernig væri það frænka :-)