Saturday, February 5, 2011

Þetta gengur ágætlega

Held ég sé að læra á þetta. Kannski það sé vegna þess að ég á að vera að lesa fræðigreinar :). Já við hjúkkusysturnar fjórar erum í lokaverkefnisvinnu (pælið í því). Núna er heimildasöfnun og lestur fræðigreina í hámarki. Ég þakka á hverjum degi fyrir internetið og gagnasöfnin sem þar er að finna. Það fer ekki lítill tími í leit að efni skal ég segja ykkur, og ég hugsa bæði með hryllingi og stolti til þessa fólks sem þurfti að hlaupa á milli bókasafna og skoða þúsundir tímaritna og bóka ásamt því að fá millisafnalán og ég veit bara ekki hvað, sem sagt þess fólks sem skrifaði lokaritgerðir fyrir tíma internetsins og gagnasafna.

Fræðigreinar eru kapítuli út af fyrir sig. Þær eru jú fræðandi og áhugavekjandi (oftast) en þær eru á svo yfirgengilega hátíðlegu og formlegu máli (að sjálfsögðu flestar á ensku) að það er erfitt að komast í gegnum þær og þó maður skilji efnið nógu vel til að finnast það áhugavert og skilji nokkurn veginn hvert er verið að fara og meina með efninu þá er ótrúlega erfitt að koma því yfir á íslensku, þetta þarf jú að vera rétt þýtt og ekki má merkingin breytast við þýðinguna. Hlakka til að geta farið að koma einhverju saman, sjá texta á blaði og fá það á tilfinninguna að lokaverkefnið sé að fæðast. Þegar það gerist þá verður restin auðveldari viðureignar.

Á dagskránni er líka verknám, síðasta verknámstímabilið. Byrja núna 9.feb á heilsugæslunni hér á Höfn (þvílíkur léttir að geta verið heima) og hlakka til. Verð þar í þrjár vikur og vinn tvö verkefni í tengslum við það. Það er líka eftir að fara í fjarnemaviku á Akureyri og suður að taka viðtöl í tengslum við lokaverkefnið. Og svo er það náttúrulega vinnan og börnin og allt þetta venjulega. Nóg að gera og mér ætti ekki að leiðast og tíminn flýgur (ótrúlega hratt).

Kveð í bili og ætla að sökkva mér í smá lestur og þýðingu áður en ég fer á kvöldvakt.

1 comment:

Frú Sigurbjörg said...

Svo hér ertu?! Var einmitt að vona þú hefðir ekki hætt blogginu þó ég kæmi að lokuðum dyrum á hinum staðnum! Velkomin á blogspot-inn, hann er ágætur : )